Chauvin fær 22 ára dóm fyrir morðið á Floyd

Derek Chauvin.
Derek Chauvin. AFP

Fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin var dæmdur til 22 ára fangelsisvistar rétt í þessu. Honum hefur verið haldið í einangrun síðan hann var fundinn sekur um morðið á George Floyd í aprílmánuði.

Áður en dómarinn kvað upp dóminn gaf hann út stutta athugasemd sem lýsti því hvernig hann komst að niðurstöðu dómsins, rúmlega 22 ára fangelsisvist.

„Athugasemdir mínar verða í raun og veru mjög stuttar, vegna þess að flestar þeirra verða skriflegar,“ sagði dómarinn og benti á 22 blaðsíðna dómgreinargerð sína.

Fólk stóð fyrir utan réttarsalinn og beið fregna.
Fólk stóð fyrir utan réttarsalinn og beið fregna. AFP

Lögfræðileg greining

Hann sagðist ætla að láta skriflegt verk sitt standa, vegna þess að þetta mál „er lögfræðileg greining“ og „byggist ekki á tilfinningum eða samúð“.

„Ég viðurkenni hins vegar þann sársauka sem fannst í þessum réttarsal og utan hans,“ sagði dómarinn. Sársaukinn hefði fundist víða um land en hann bætti við að „mikilvægast er að við gerum okkur grein fyrir þeim sársauka sem fjölskylda Floyds finnur fyrir“.

mbl.is