Fluttu heróín til Tromsø

Fíkniefnahringur hafði um árabil flutt mikið magn heróíns og amfetamíns …
Fíkniefnahringur hafði um árabil flutt mikið magn heróíns og amfetamíns frá Ósló til Tromsø, sem sést á myndinni, og hefur lögregla lagt hald á tæplega fjögur kílógrömm af þessum efnum samanlagt við rannsókn málsins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein-Magne Tunli

Níu manns á aldrinum 20 – 50 ára, flestir norskir ríkisborgarar af sómölsku bergi brotnir, eru í haldi lögreglu í Noregi, grunaðir um skipulagðan flutning heróíns og amfetamíns frá Ósló til Tromsø um árabil, að minnsta kosti frá 2018.

Að sögn Yngve Myrvoll, rannsóknarlögreglumanns í Tromsø, voru flutningar efnanna þaulskipulagðir og fóru sendingar mánaðarlega frá höfuðborginni norður til Tromsø, ýmist með flugi eða bifreiðum.

„Þetta var vel skipulagður hópur sem bjó yfir úrræðum til að skipuleggja flutninga fíkniefna og peninga og hefur séð markaðnum í Tromsø fyrir heróíni árum saman,“ segir Myrvoll við norska ríkisútvarpið NRK.

Hátt götuverð

Lögreglan hóf rannsókn sína í fyrrahaust og áttu fyrstu handtökurnar sér stað í ágúst og fjölgaði hinum handteknu svo yfir veturinn. Lagði lögregla hald á umtalsvert magn fíkniefna eftir því sem fíkniefnahringurinn var afhjúpaður, alls 2,5 kílógrömm af amfetamíni og 1,2 af heróíni, þar af 700 grömm í einu lagi.

Lögreglunni í Tromsø er ekki kunnugt um smásöluverðmæti haldlögðu efnanna, en heróín er dýrt í Noregi. „Við vitum að heróínið selst háu verði, síðustu tölur sem við heyrðum voru að grammið kostaði 1.500 krónur [21.500 ISK] á götunni í Tromsø,“ segir Myrvoll.

Hann kveður rannsóknina krefjandi, vitað sé að hringurinn teygði anga sína einnig til norðurfylkjanna Nordland og Finnmark. „Allar rannsóknir mála af þessu tagi eru flóknar. Þær krefjast aðferðafræði af hálfu lögreglu sem snýst um að villa á sér heimildir,“ segir lögreglumaðurinn enn fremur.

Auk þeirra handteknu liggja fleiri undir grun í Tromsø fyrir ýmsa veigaminni þátttöku í starfseminni, svo sem meðferð söluandvirðis í reiðufé og milligöngu um móttöku efna á leið í smásöludreifingu í bænum. Rannsókn málsins er á lokastigi og reiknar lögregla með að senda það áfram til héraðssaksóknara innan tíðar.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert