„Þetta er lifandi helvíti“

AFP

Hvirfilbylur hefur farið yfir þorp og bæi í suðausturhluta Tékklands síðastliðinn sólarhring. Hið minnsta þrír eru látnir og 60 slasaðir. 

Talsverð eignaspjöll hafa orðið á íbúðarhúsnæði og ökutækjum. „Þetta er lifandi helvíti,“ sagði Jan Grolich, svæðisstjóri Suður-Móravíu, við BBC eftir að hafa heimsótt svæði sem urðu fyrir hvirfilbylnum. Tékkneskar, austurrískar og slóvakískar björgunarsveitir hafa verið sendar á svæðið. 

Michaela Bothová, upplýsingafulltrúi björgunarsveita Suður-Móravíu, segir við BBC að 63 hafi verið fluttir á sjúkrahús. Tíu þeirra eru þungt haldnir. Tugir til viðbótar hafa sjálfir leitað sér læknisaðstoðar. 

AFP

Í bænum Hodonin hefur hvirfilbylurinn valdið eyðileggingu dýragarðs og hjúkrunarheimilis. Bærinn er eins og stríðssvæði að sögn Antonin Tesarik, yfirmanns sjúkrahúss bæjarins. Yfir 200 hafa fengið þar aðhlynningu. „Þetta var heimsendir. Það var blóð út um allt og grátandi bjargarlaust fólk. Það bjargaði lífi sínu og missti þakið yfir höfði sér,“ segir Tesarik. 

Hvirfilbylurinn hefur jafnframt valdið umfangsmiklum umferðarröskunum og rafmagnsleysi. Yfir 100 þúsund heimili voru án rafmagns í nótt. 

AFP
mbl.is