Fundu milljónir á víðavangi

„Við fundum stóran svartan poka. Í honum voru fjórir bögglar, …
„Við fundum stóran svartan poka. Í honum voru fjórir bögglar, vafðir límbandi. Við reyndum að opna þá með hníf og þá sáum við glitta í þúsundkallana,“ segir Ole Bisseberg frá fundi þeirra félaga sem líklega nemur tæpum 30 milljónum íslenskra króna hafi svipuð upphæð verið í öllum bögglunum. Ljósmynd/Ole Bisseberg

Ole Bisseberg og félagi hans römbuðu á nokkuð sem líklega mun seint líða þeim úr minni í göngutúr í Mossemarka, skóglendi skammt frá bænum Moss í Østfold í Noregi á fimmtudagsmorguninn.

Gengu þeir félagar að Våpenhula sem svo heitir, sögufrægum helli sem dregur nafn sitt af því er norska andspyrnuhreyfingin varpaði vopnum í fallhlífum úr flugvélum þar yfir, veturinn 1944 – '45, og Ellingsen bóndi í Gashus og sonur hans drógu vopnin á hestasleða drjúgan spöl og földu í hellinum sem var eins konar leynileg birgðageymsla andspyrnuhreyfingarinnar á hernámsárunum.

Bisseberg og kunninginn, sem óskar nafnleyndar, kíktu inn í hellinn sögufræga og tóku svo að vasast um í nágrenninu enda veðurblíða með eindæmum í Austur-Noregi þessa dagana auk þess sem í þeim blundaði vonin um að finna einhvers konar stríðsminjar í nánd við þennan gamla felustað.

Þéttur peningavöndull, fjólubláir þúsund króna seðlar efst og brúnir fimm …
Þéttur peningavöndull, fjólubláir þúsund króna seðlar efst og brúnir fimm hundruð króna neðar, eitthvað sem maður tínir almennt ekki upp af götunni. Ljósmynd/Ole Bisseberg

Þegar þeir komu að litlum hellisskúta og skyggndust þar inn fyrir í forvitni sinni sáu þeir hvar glitti í svartan plastpoka. „Við fundum stóran svartan poka. Í honum voru fjórir bögglar, vafðir límbandi. Við reyndum að opna þá með hníf og þá sáum við glitta í þúsundkallana,“ segir Bisseberg í samtali við norska dagblaðið VG.

Norskir þúsund króna seðlar eru sjaldséðir í umferð nú orðið og jafngilda tæpum 15.000 íslenskum krónum, norskir hraðbankar bjóða ekki upp á stærri seðla en 500 krónur og helst að fara þurfi í banka til að nálgast slíka seðla þótt nú séu fæstir bankar landsins með reiðufé til almennrar afgreiðslu, viðskiptavinum er bent á hraðbanka þurfi þeir reiðufé eða erlendan gjaldeyri.

Þeim göngumönnum rann kalt vatn milli skinns og hörunds með allt þetta fé í höndunum. „Við áttuðum okkur á því að þetta gæti verið gríðarleg upphæð og best væri að koma sér heim á leið. Aldrei að vita nema einhver fylgdist með staðnum,“ segir Bisseberg og það gerðu þeir.

Hellisskútinn í Mossemarka lætur ekki mikið yfir sér en geymdi …
Hellisskútinn í Mossemarka lætur ekki mikið yfir sér en geymdi þó stórfé eins og féþúfan sem bóndinn bölvaði í þjóðsögunni um marbendilinn. Ljósmynd/Ole Bisseberg

Er þangað var komið töldu þeir peningana úr einum bögglinum sem reyndust 500.000 krónur, rúmar sjö milljónir íslenskra króna, og reiknuðu þeir þá út að væri svipuð upphæð í öllum bögglunum hefðu þeir fundið tvær milljónir í skóginum, jafnvirði 29 milljóna íslenskra króna.

Vinirnir horfðust í augu felmtri slegnir. „Svo ákváðum við að best væri að hringja í lögregluna,“ segir Bisseberg og kveður lögreglu hafa birst mjög fljótt á tröppum heimilis hans í Rygge. Þá hafi verið tekin skýrsla af þeim göngumönnum og að lokum farið í lögreglufylgd að fundarstaðnum þar sem þeir þurftu að sýna nákvæmlega hvar þeir fundu féð.

Terje Marstad, varðstjóri hjá austurumdæmi norsku lögreglunnar, staðfestir peningafundinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Þetta hefur allt verið sent til [norsku rannsóknarlögreglunnar] Kripos til rannsóknar. Vonir standa til að eitthvað finnist sem geri að hægt verði að rekja þetta til einhvers,“ segir Marstad. Hjá Kripos verði leitað að fingraförum og nothæfum DNA-leifum þess eða þeirra sem földu féð í Mossemarka.

Líklega verður einhverjum í norskum undirheimum ekki svefnsamt um helgina …
Líklega verður einhverjum í norskum undirheimum ekki svefnsamt um helgina eftir að fréttir af peningafundinum birtust í norskum fjölmiðlum í dag. Ljósmynd/Ole Bisseberg

Hann segir mjög fátítt að slíkar upphæðir finnist á víðavangi, gerist það sé þó aðeins eitt í stöðunni: „Þá á fólk að hafa samband við lögreglu og þessir tvímenningar í Moss eiga hrós skilið fyrir að hafa gert það.“

NRK

VG

ABC Nyheter

mbl.is