Ísraelar senda björgunarlið til Miami

Tíu ísraelskir verkfræðingar og björgunarsérfræðingar eru komnir til strandbæjarins Surfside í Miami í Flórída til að aðstoð við leitar- og björgunarstörf í rústum 12 hæða fjölbýlishúss sem hrundi að hluta á fimmtudag.

Níu eru látnir og 156 er enn saknað. Liðsmennirnir bætast í hóp mexíkóskra og bandarískra leitarsérfræðinga sem vinna í kapp við tímann við að finna fólk á lífi í rústunum.

Yfir 150 er enn saknað eftir að 12 hæða íbúðabygging …
Yfir 150 er enn saknað eftir að 12 hæða íbúðabygging hrundi að hluta á fimmtudag í bænum Surfside í Miami. AFP

Samfélag gyðinga telur um helming íbúa í Surfside sem eru um fimm þúsund talsins. Margir íbúar 12 hæða hússins sem hrundi eru gyðingar og voru ísraelsk stjórnvöld fljót að bjóða fram aðstoð sína. 

„Þetta er eitt besta, ef ekki það besta, og reynslumesta björgunarliði sem fyrirfinnst,“ sagði Nachman Shai, ráðherra í ísraelsku ríkisstjórninni, við komu liðsins til Miami í dag. 

Aðstandendur þeirra sem saknað er bíða milli vonar og óttar eftir kraftaverki en leit hefur staðið yfir sleitulaust í bráðum fjóra sólarhringa. Ekki liggur fyrir hvað olli hruninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert