Fílahjörð á ferðalagi

Mynd sem stjórnvöld í Yunnan-héraði birtu af fílunum sofandi.
Mynd sem stjórnvöld í Yunnan-héraði birtu af fílunum sofandi. AFP

Víðförul fílahjörð í Kína hefur valdið vísindamönnum miklum heilabrotum, en hjörðin hagar sér þvert á það sem til þessa hefur verið vitað um lifnaðarhætti þessara dýra.

Talið er að fílarnir hafi lagt af stað í júlí í fyrra frá Xishuangbanna-þjóðgarðinum í suðvesturhluta landsins og lagt að baki að minnsta kosti 500 kílómetra vegalengd. Á göngu sinni í norðurátt hafa þeir komið við í þorpum, bæjum og borgum, brotið niður hlið og hurðir, stolið mat, leikið sér í leðjunni, farið í bað í skurði og fengið sér blund á miðjum þjóðvegi. Þá hefur sést til fílanna þar sem þeir spæna í sig uppskeru á ökrum og fá sér að drekka í húsagarði þegar þeim tókst að skrúfa frá vatnskrana með rönunum.

Leiðangur fílanna hefur vakið mikla athygli í Kína og raunar víða um heim; þeir eru orðnir samfélagsmiðlastjörnur og hægt er að fylgjast með dýrunum í beinni útsendingu allan sólarhringinn í kínverska ríkissjónvarpinu.

Það er vísindamönnum einnig ráðgáta hvers vegna fílarnir lögðu af stað í þennan leiðangur.

„Í sannleika sagt veit það enginn. Ganga fílanna tengist þó nær örugglega eðlislægri leit að mat, vatni og skjóli og því að víðast hvar í Asíu hafa athafnir mannana þrengt að hefðbundnum búsvæðum fíla,“ segir Joshua Plotnik, aðstoðarprófessor við Hunter-háskóla í New York, við breska ríkisútvarpið BBC.

Hann segir að ferðalagið gæti einnig tengst breytingum á félagslegri samsetningu hjarðarinnar. Í fílahjörðum er elsta og vitrasta kýrin jafnan forystudýrið og henni fylgja ömmur, mæður og frænkur ásamt sonum og dætrum. Eftir að karlfílar verða kynþroska yfirgefa þeir hörðina og fara einförum eða slást í för með öðrum karldýrum í stuttan tíma. Þeir eiga aðeins samskipti við kvendýr til að makast en halda síðan aftur á brott.

Í fílahjörðinni í Kína voru upphaflega 16 eða 17 dýr, þar af þrjú karldýr. Tvö þeirra yfirgáfu hópinn um mánuði síðar en það þriðja fylgdi hjörðinni þar til í byrjun júní er það fór að dragast aftur úr. Chen Mingyong, prófessor við Yunnan-háskóla í Kína, sem hefur fylgst með hjörðinni, sagði við kínverska fjölmiðla að fullorðnu kýrnar virtust taka þessu illa og hvöttu hannmeð hljóðum að haska sér en hann lét það sem vind um eyru þjóta.

Það kom vísindamönnum einnig í opna skjöldu þegar tvær kýr í hjörðinni eignuðust afkvæmi á leiðinni.

„Fílar eru mjög vanaföst dýr og það er óvenjulegt að þeir færi sig úr stað þegar þeir eiga von á sér – venjulega leita þeir að öruggu umhverfi,“ sagði Lisa Olivier, starfsmaður dýraverndarsamtakanna Game Rangers International í Sambíu, við BBC.

Hún sagði að myndir, sem birst hafa af fílunum sofandi þétt uppi við hver annan, séu einnig óvenjulegar.

Venjulega sofi ungviðið á jörðinni en fullorðnu dýrin halli sér upp að tré eða termítahraukum þegar þau sofa. „Þau eru svo stór, að það tekur þau langan tíma að standa upp ef hætta steðjar að og það reynir einnig mjög á hjartað og lungun að standa upp. Að þau hafi sofið liggjandi á jörðinni bendir til þess að þau hafi öll verið örmagna eftir að hafa brugðist við ókunnum aðstæðum,“ segir Olivier.

Fílum í Yunnan-héraði í Kína hefur fjölgað á síðustu áratugum. Á níunda áratug síðustu aldar voru þeir rúmlega 190 en þeir eru nú taldir vera yfir 300.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert