Kim lætur embættismenn taka pokann sinn

Mynd af Kim sem birt var í gær. Hann segist …
Mynd af Kim sem birt var í gær. Hann segist ósáttur með umrædda embættismenn. AFP

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, skipti nokkrum háttsettum embættismönnum út eftir svokallað kórónuveirutilvik, að því er ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu greindu frá í morgun. Ekki hefur verið gefið upp um hvað atvikið snýst nákvæmlega en fjölmiðlar hafa gefið í skyn að það tengist brotum á sóttvarnareglum í landinu.

Landamærum að Norður-Kóreu var lokað í janúar í fyrra með það að yfirlýstu markmiði að vernda íbúa landsins fyrir heimsfaraldrinum.

Opinberlega hafa engin tilvik Covid-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, verið staðfest í Norður-Kóreu, hvorki af þarlendum yfirvöldum né af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Sérfræðingar telja þó að smit hafi komið upp í landinu. 

Segir embættismennina sjálfselska og ábyrgðarlausa

Að sögn Kim höfðu umræddir embættismenn vanrækt skyldur sínar og valdið atviki sem „skapaði hættuástand hvað varðar öryggi landsins og þjóðarinnar og hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar,“ sagði Kim um málið, samkvæmt ríkisfjölmiðlum. 

Þá sakaði Kim embættismennina um að hugsa einungis um sjálfa sig og sagði að skortur þeirra á ábyrgð og hæfileikum hafi haft eyðileggjandi áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert