Fjármálastjóri Trump gefur sig fram við saksóknara

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ásamt syni sínum Donald, Jr. Í …
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ásamt syni sínum Donald, Jr. Í bakgrunni má sjá glitta í Allen Weisselberg, fjármálastjóra Trump-stofnunarinnar, sem gaf sig fram við saksóknara á Manhattan í morgun vegna meintra skattalagabrota. AFP

Allen Weisselberg, fjármálastjóri Trump-stofnunarinnar (e. The Trump Organization), gaf sig fram við saksóknara í Manhattan í morgun. Bandarískir miðlar greindu frá því í morgun að stofnunin og Weisselberg, náinn samstarfsmaður Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta til margra ára, verði ákærð í dag vegna meintra skattalagabrota. 

Weisselberg kom ásamt lögmanni sínum, Mary E. Mulligan, á skrifstofu saksóknara í Manhattan eldsnemma í morgun. Meint skattalagabrot eru rannsökuð í samstarfi við Letitia James, ríkissaksóknara í New York. 

Ná­kvæmt efni ákær­unn­ar hef­ur ekki verið gefið út en rann­sókn á fyr­ir­tæk­inu og fjár­mála­stjór­an­um hef­ur staðið yfir í tvö ár og er þetta fyrsta saka­málið sem er höfðað vegna henn­ar. Saksóknarar munu væntanlega upplýsa um efni ákærunnar þegar Weisselberg kemur fyrir dómara síðar í dag ásamt fulltrúum Trump-stofnunarinnar.  

Búist er við að Weis­sel­berg verði ákærður fyr­ir að skjóta und­an skatti og snýr meðal annars að því að Weis­sel­berg og aðrir stjórn­end­ur inn­an Trump-stofnunarinnar hafi forðast að greiða skatta af fríðind­um sem fyrirtækið veitti þeim, t.a.m. skóla­gjöld­um fyr­ir einka­skóla, lúx­us­bíl­um og íbúðum. 

Weisselberg, sem er 73 ára, hefur verið tryggur Trump í um tuttugu ár, og þar áður starfaði hann fyrir föður Trump. Trump hefur lýst honum sem vinnusömum og sjálfur segist Weisselberg „aldrei taka sér frí“. Weisselberg eða lögfræðingar hans hafa ekki gefið kost á viðtölum eftir heimsóknina til saksóknara í morgun. 

Ekki er bú­ist við því að Trump verði ákærður. Hann seg­ir að ákær­an sé af póli­tísk­um toga og lýs­ir mál­inu sem „fram­haldi á mestu norna­veiðar í sögu Banda­ríkj­anna.“

Ákæran gæti engu að síður komið sér illa fyrir Trump og hans fyrirtækjarekstur en Trump-stofnunin hefur nú þegar misst samninga við New York-borg í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið í Washington í janúar. Þá herma heimildir New York Times að lánardrottnar muni mögulega fjaldfellst skuldir fyrirtækisins og gert það þannig gjaldþrota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert