Konunni með skiltið sleppt úr haldi

Konan ætlaði væntanlega að skila kveðju til ömmu og afa …
Konan ætlaði væntanlega að skila kveðju til ömmu og afa heima í stofu. Ljósmynd/Twitter

Þrítugri konu sem olli stór­slysi á fyrsta keppn­is­degi Frakk­lands­hjól­reiðanna, Tour de France, hefur verið sleppt úr haldi. Henni er þó gert að mæta fyrir dóm í októbermánuði. Þar gæti hún staðið frammi fyrir ákærum um skeytingarleysi og fyrir að valda líkamsmeiðingum óviljandi.

Konan var handtekin á miðvikudag og yfirheyrð. Hún var meðal áhorf­enda við keppn­is­braut­ina og hélt á skilti sem á stóð „amma og afi“ á þýsku, en sjón­varpað var frá keppn­inni.

Skiltið náði inn á braut­ina og felldi þýska hjólareiðamann­inn Tony Mart­in sem varð til þess að fjöldi kepp­enda féll á göt­una. Kon­an flúði af vett­vangi eft­ir slysið og hef­ur lög­regla leitað henn­ar síðan.

At­vikið olli al­gjör­um glundroða. Taf­ir urðu á keppn­inni og átta kepp­end­ur þurftu að leita lækn­isaðstoðar. Einn þurfti að draga sig al­farið úr keppn­inni.

mbl.is