Skátasamtök greiða milljarða í bætur til brotaþola

Skátar samtakanna í skrúðgöngu í Bandaríkjunum. Myndin er úr safni.
Skátar samtakanna í skrúðgöngu í Bandaríkjunum. Myndin er úr safni. AFP

Drengjaskátasamtök Bandaríkjanna (e. Boy Scouts of America) hafa náð samkomulagi upp á sem nemur 106 íslenskum milljörðum vegna ásakana um kynferðisbrot innan samtakanna í fortíðinni. Lögfræðingar segja að um sé að ræða stærsta samkomulag í slíku máli í sögu Bandaríkjanna. 

Samtökin hafa beðið brotaþola afsökunar og sagst ætla að koma á fót bótasjóði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Samtökin sóttu um að vera tekin til gjaldþrotaskipta í fyrra.

Árið 2012 afhjúpaði dagblaðið Los Angeles Times um 5.000 skrár þar sem fram komu ásakanir á hendur skátaforingjum sem taldir voru „óhæfir“. Fæst atvikanna höfðu verið tilkynnt til lögreglu. 

Í yfirlýsingu sögðu samtökin, sem eru rúmlega aldar gömul, að samkomulagið væri liður í „áframhaldandi viðleitni til að ná fram úrbótum á alþjóðavísu og tryggja framtíð skátastarfsins“. Dómari þarf að samþykkja samkomulagið.

mbl.is