Myrkustu tímar Bandaríkjanna að baki

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti lýsti yfir sjálfstæði frá Covid-19 í ræðu sem hann hélt á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í gær. Hann varaði þó við og benti á að fullnaðarsigur gegn veirunni væri ekki unninn.  

Biden bar baráttuna við kórónuveirufaraldurinn saman við sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna frá breska heimsveldinu árið 1776. „Fyrir 245 árum lýstum við yfir sjálfstæði frá fjarlægum konungi. Í dag erum við nær því en nokkru sinni fyrr að geta lýst yfir sjálfstæði frá banvænni veiru,“ sagði Biden m.a. í ræðu sinni í Hvíta húsinu í gær. 

Ashley Biden skellti í sjálfu með foreldrum sínum, forsetahjónunum Joe …
Ashley Biden skellti í sjálfu með foreldrum sínum, forsetahjónunum Joe og Jill Biden, og dætrum sínum Finnegan og Naomi á þjóðhátíðarfögnuði í Hvíta húsinu í gær. AFP

Í tilefni af þjóðhátíðardeginum hélt Biden sinn stærsta viðburð í Hvíta hús­inu frá því hann tók við embætti. Forsetahjónin tóku á móti þúsund her­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra auk heil­brigðis­starfs­fólks. 

Biden sagði Bandaríkjamenn hafa náð yfirhöndinni gegn veirunni en bætti við að faraldurinn væri ekki búinn að segja sitt síðasta. Vísaði hann í því tilliti til stökkbreytinga á borð við Delta-afbrigðið sem hefur náð útbreiðslu á nokkrum stöðum í heiminum, meðal annars í Bandaríkjunum. 

Yfir 600 þúsund hafa látið lífið af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum frá því faraldurinn braust út í byrjun árs 2020. Biden vottaði hinum látnu og aðstandendum þeirra virðingu sína í ræðunni í gær. 

„Síðastliðið ár höfum við gengið í gegnum okkar myrkustu tíma. En björtustu tímar okkar eru handan við hornið,“ sagði Biden. 

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti lýsti yfir sjálfstæði frá Covid-19 í ræðu …
Joe Biden Banda­ríkja­for­seti lýsti yfir sjálfstæði frá Covid-19 í ræðu sem hann hélt á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í gær. AFP

Bandaríkjamenn fögnuðu þjóðhátíðardeginum víða um land og svo virðist sem þjóðin sé tilbúin til að segja skilið við faraldurinn að fullu. Stjórn Bidens hefur þó áhyggjur af hægagangi bólusetninga. Stefnan var sett á að sjö af hverjum tíu fullorðnum fengju fyrri skammt bóluefnis fyrir þjóðhátíðardaginn en það tókst ekki þótt ekki munaði miklu. 46% Bandaríkjamanna eru fullbólusett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert