Fimm dæmd fyrir skelfileg brot gegn börnum

Adrian V. sést hér í réttarsal ásamt verjanda sínum.
Adrian V. sést hér í réttarsal ásamt verjanda sínum. AFP

Fjórir karlmenn hlutu í dag þunga dóma í Þýskalandi fyrir að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn börnum og fyrir að hafa myndað athæfin. Málið hefur vakið mikinn óhug og leitt til viðamikilla umbóta á lögum er taka á barnaníði. 

Héraðsdómur í Münster í vesturhluta Þýskalands sakfelldi mennina sem hlutu 10 til 14 ára dóma. Þá hlaut móðir eins þeirra fimm ára dóm fyrir að hafa aðstoðað og hylmt yfir ofbeldið. Sonur hennar, sem er 28 ára gamall, er talinn einn af höfuðpaurunum í málinu. 

Dómararnir sem dæmdu í málinu. Matthias Pheiler sést hér fyrir …
Dómararnir sem dæmdu í málinu. Matthias Pheiler sést hér fyrir miðri mynd. AFP

Málið hið skelfilegasta

Dómarinn, Matthias Pheiler, sagði við dómsuppkvaðninguna, að málið væri allt hið skelfilegasta. Hann sagði að upptökurnar sem voru gerðar hefðu vakið mikinn óhug. 

„Við málflutninginn kom skýrt fram hvernig barnaníðingar starfa; þeir blekkja, þeir ljúga, þeir ráðskast með fólk“ sem tengist fórnarlömbunum. Hann sagði jafnframt að það hefði verið viðurstyggilegt að horfa upp á sakborningana glotta og jafnvel hlæja upphátt þegar ákæruvaldið lagði fram sín sönnunargögn í málinu.

Pheiler sagði að hann væri mjög feginn að ekkert barnanna hefði þurft að gefa skýrslu við réttarhaldið. 

Sakborningarnir huldu andlit sín.
Sakborningarnir huldu andlit sín. AFP

Ítrekuð brot í þrjá daga

Sá sem hlaut þyngsta dóminn er tölvunarfræðingur sem var aðeins nefndur Adrian V. Hann var sakfelldur fyrir að hafa lokað unga pilta inni í skúr í apríl 2020 þar sem hann, ásamt öðrum karlmönnum, gaf þeim deyfilyf og nauðgaði þeim ítrekað yfir þriggja daga tímabil. Eitt fórnarlambanna, sem er 11 ára, var sonur þáverandi kærustu hans.

Saksóknarinn lagði fram sem sönnunargögn yfir 30 klukkustundir af myndböndum, en búið var að deila miklu af því efni á spjallrásum á myrka vefnum (e. dark net). 

Talið er að hinir mennirnir sem voru einnig dæmdir í málinu hafi kynnst Adrian V. í gegnum netspjall. Sá yngsti er 31 árs og sá elsti 43 ára.

Færði barnaníðingunum morgunmat

Móðir Adrians, Carina V., átti skúrinn þar sem brotin voru framin. Hún var sakfelld fyrir að hafa vitað hvað var í gangi. Fram kom við málsmeðferðina, að hún hefði gefið mönnunum morgunmat er þeir skiptust á að nauðga börnunum. 

Lögreglan er enn að fara yfir sönnunargögn sem fundust á vettvangi. Gögnin hafi m.a. vísað á aðra níðinga, bæði í Þýskalandi sem og í öðrum löndum. Þegar er búið að dæma aðra fimm menn í fangelsi í tengslum við þetta mál, og nú þegar hafa rannsóknarlögreglumenn borið kennsl á 50 aðra grunaða einstaklinga. Þrjátíu þeirra eru nú þegar í haldi lögreglu.

Þýska lögreglan hefur fleiri mál til rannsóknar. Myndin er úr …
Þýska lögreglan hefur fleiri mál til rannsóknar. Myndin er úr safni. AFP

Ekki eina málið

Réttarhaldið hófst í nóvember og eru dómarnir almennt í samræmi við það sem ákæruvaldið fór fram á. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum óhugnanlegum barnaníðsmálum sem hafa komið upp í Norðurrín-Vestfalíu sl. ár og leitt til þess að löggjöf gegn barnaníði hefur verið hert. 

Í júní 2020 greindu rannsóknarlögreglumenn frá því að þeir væru með um það bil 30.000 einstaklinga til skoðunar sem eru grunaðir um að tengjast umsvifamiklu neti barnaníðinga á vefnum, sem tengdist borginni Bergisch Gladbach.

Í eldra máli brutu nokkrir menn gegn börnum á tjaldsvæði í borginni Lügde yfir nokkurra ára tímabil. 

Þýsk stjórnvöld brugðust við þessum málafjölda í mars sl. með því að herða refsingar í málum þar sem fólk m.a. skoðar og deilir myndefni sem sýnir barnaníð. Þá fær lögreglan og ákæruvaldið auknar heimildir til að hafa eftirlit með netsamskiptum grunaðra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert