Neyðast til að aflýsa brúðkaupsferð til Íslands

Bólusetning gegn Covid-19 mun að öllum líkindum skemma drauma brúðkaupsferðina …
Bólusetning gegn Covid-19 mun að öllum líkindum skemma drauma brúðkaupsferðina til Íslands fyrir Paula Watts og Peter Harris sem ætla að ganga í það heilaga í lok júlí. Ljósmynd/Facebook

Bresk verðandi brúðhjón neyðast að öllum líkindum til að aflýsa brúðkaupsferð sinni til Íslands þar sem brúðguminn er bólusettur með bóluefni Novavax sem hefur enn ekki fengið markaðsleyfi. 

„Ég trúi ekki hversu vonsvikinn ég er. Ég er miður mín,“ segir Peter Harris í samtali við BBC

Harris og Paula Watts ætla að ganga í það heilaga í lok júlí og eru búin að bóka draumabrúðkaupsferðina til Íslands 1. ágúst. 

„Við hlökkuðum mikið til Íslandsferðarinnar, við vorum búin að eyða háum upphæðum, en það er ekki bara kostnaðurinn sem skiptir máli, við erum búin að eyða gríðarmiklum tíma og orku í að skipuleggja ferðina,“ segir Harris. 

Peter var sjálfboðaliði í klínískum tilraunum með bóluefni Novavax í október og fékk hann tvo skammta með þriggja vikna millibili. Helmingur þátttakenda fékk lyfleysu og því ákvað Harris að þiggja hinn skammtinn í apríl til að gulltryggja að hann væri bólusettur. 

Það dugir hins vegar ekki til þar sem Novavax hefur ekki fengið markaðsleyfi í Evrópu. Harris hafði þá samband við heilsugæslu í borginni Consett í Durham-sýslu á Norðaustur-Englandi, þar sem hann býr, en fékk þau svör að þar sem hann hefði tekið þátt í klínískri rannsókn á bóluefni gæti hann ekki fengið hefðbundna bólusetningu, fyrst og fremst af öryggisástæðum. 

Harris segir stöðuna afar svekkjandi, ekki síst þar sem honum hafi verið sagt að hann myndi ekki tapa á því að taka þátt í tilraunabólusetningu. 

Hjónin tilvonandi vildu öðruvísi brúðkaupsferð og því varð Ísland fyrir valinu. Nú hallast þau hins vegar að Grikklandi, sem er eitt fárra landa sem samþykkja ferðamenn sem bólusettir eru með Novavax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert