„Delta-afbrigðið breytir öllu“

Útgöngubann í Sydney, sem hefur verið í gildi frá 26. júní, hefur verið framlengt um viku. Heilbrigðisyfirvöld í Nýja Suður-Wales greindu frá þessu í dag og gildir bannið í öllu fylkinu. 

Bannið var upphaflega sett á til að bregðast við útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Útgöngubannið átti að renna út á föstudag en hefur nú verið framlengt um að minnsta kosti viku. 

„Eins og við höfum verið að segja, Delta-afbrigðið breytir öllu, það breiðist hratt út og er meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar sem við höfum séð,“ segir Gladys Berejiklian, fylkisstjóri í Nýja Suður-Wales. 

Áströlum hef­ur al­mennt séð gengið vel að draga úr smit­um inn­an­lands með mark­viss­um aðgerðum, s.s. að loka landa­mær­um, gera að kröfu að fólk fari í sótt­kví á hót­eli við komu til lands­ins og með því að grípa til skyndi­lok­ana. Nú hafa 330 tilfelli greinst í Sydney, þar af 27 í gær, og hafa ekki verið fleiri virk smit í borginni það sem af er ári. 

Íbúar í Sydney á leið í bólusetningu. Útgöngubann í Nýja …
Íbúar í Sydney á leið í bólusetningu. Útgöngubann í Nýja Suður-Wales sem átti að ljúka á föstudag hefur verið framlengt um viku sökum útbreiðslu Delta-afbrigðis veirunnar. Aðeins 10% Ástrala eru bólusettir. AFP

Þá virðist Covid-þreyta vera komin í borgarbúa en dæmi eru um að smitað fólk hafi farið út úr húsi, til dæmis í verslanir að kaupa nauðsynjavörur, þegar það átti að vera í einangrun. Yfirvöld í Nýja Suður-Wales segjast meðvituð um streituna og erfiðleikana sem útgöngubannið hefur á fjölskyldur og fyrirtæki. 

„Vilji okkar er að þetta verði eina útgöngubannið þar til meirihluti íbúa verður bólusettur,“ segir Berejiklian. Yfirvöld vilja forðast að setja á og aflétta útgöngubanni á víxl. 

Íbúar hafa lýst yfir óánægju með hve bólu­setn­ing geng­ur hægt í land­inu, en aðeins um 10% lands­manna eru nú full­bólu­sett. Skortur á bóluefni, sérstaklega frá Pfizer, veldur því að margir Ástralar verða ekki bólusettir fyrr en í lok árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert