Læknum nóg boðið

Rafskútur bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag …
Rafskútur bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag einn í júní. Læknar á slysavarðstofum sjúkrahúsanna þriggja, sem heyra undir Háskólasjúkrahúsið í Ósló, hafa nú fengið sig fullsadda eftir 421 rafskútuslys í júní og biðla til rafskútuleiga að læsa hjólunum að næturlagi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í kjölfar 421 líkamstjóns í nýliðnum júnímánuði við notkun rafmagnshlaupahjóla, eða rafskúta sem svo hafa verið nefndar, hafa læknar á slysavarðstofum Háskólasjúkrahússins í Ósló, sem þrjú sjúkrahús tilheyra, ritað forsvarsmönnum rafskútuleiga borgarinnar bænaskjal og hvatt þá til að stöðva þá vargöld sem ríkir á götum Óslóar um nætur með því að loka á notkun farartækjanna frá klukkan 23 til fimm að morgni.

Slysatölfræðin sýnir meira en tvöfaldan fjölda tilfella miðað við júnímánuð í fyrra og kveður Henrik Siverts yfirlæknir nóg komið, deildirnar hafi þurft að fjölga hvort tveggja læknum og hjúkrunarfræðingum á vakt til að sinna skemmtanaþyrstum borgarbúum sem spara sér leigubílinn með mun ódýrari fararskjóta.

Níu prósent áverka alvarleg

Stundum væri krónunum þó betur varið í leigubíl með allsgáðum bílstjóra, helmingur þeirra rafskútuferðalanga sem leita til slysadeildarinnar eru nefnilega ölvaðir, 30 prósent allra viðskiptavina sem þangað leita að næturlagi hafa slasast á rafskútum, meðalaldur þeirra er 30 ár, 43 prósent eru konur og 57 prósent karlar, 63 prósent áverkanna eru minni háttar, 28 prósent í meðallagi, svo sem heilahristingur og smærri beinbrot, níu prósent alvarleg og er þar átt við blæðingar í höfði og beinbrot sem krefjast aðgerðar. Lokapunktur tölfræðinnar er að slysunum fjölgar í blíðviðri, enda júní í ár sá fimmti heitasti í Noregi frá árinu 1900.

Rafskútuleigan Ryde hefur ákveðið að heyra erkibiskups boðskap að hluta og loka hjólum sínum milli klukkan eitt og fimm á nóttunni um helgar. Eivind Saga, stjórnarformaður fyrirtækisins, tekur þó sérstaklega fram að rafskúturnar séu ekki vandamálið, heldur glannaleg notkun þeirra.

„Sem eitt stærsta fyrirtækið í bransanum axlar Ryde ábyrgð á meðan við bíðum eftir að sett verði vínandamörk á notkun hjólanna, sem við vonum að [Knut Arild] Hareide [samgönguráðherra] geri. Við væntum þess enn fremur, að önnur fyrirtæki fari að okkar dæmi,“ segir Saga.

Lækka hámarkshraðann

Það hyggst annað rafskútufyrirtæki, Voi, einmitt gera, þó á annan hátt. „Við ætlum að lækka hámarkshraðann á hjólunum okkar frá næstu helgi. Þá munu þau aðeins ná 15 kílómetra hraða til að forðast þann hraða sem eykur slysahættuna,“ segir Øystein Sundelin, talsmaður Voi, við norska ríkisútvarpið NRK.

„Aukið eftirlit lögreglu er nauðsynlegt og eins að ríkisstjórnin setji skýrar reglur um leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði þeirra sem hjólin nota. Þetta hefur Voi verið að þrýsta á í bráðum tvö ár. Það er ekki rétt að refsa öllum þeim sem nota hjólin ódrukknir,“ segir Sundelin enn fremur.

Fullkominn óþarfi

Tina Gaarder yfirlæknir og hennar samstarfsfólk telja rafskútunotkunina orðna samfélagsmein sem leggi gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið. Margir slasi sig alvarlega og hljóti til dæmis andlitsáverka sem geti orðið þeim lýti um aldur og ævi. „Þetta fólk er ekki með áverka á höndunum, það nær ekki að bera hendurnar fyrir sig,“ segir Gaarder við NRK.

Siverts starfsbróðir hennar heldur áfram: „Við skiljum ekki að leigurnar axli ekki sína ábyrgð, né að borgin geti ekkert aðhafst í þessu. Næturvaktafólkinu er gramt í geði, þetta er svo fullkominn óþarfi,“ segir hann um slysabylgjuna.

Sirin Hellevin Stav, borgarfulltrúi umhverfis- og samgöngumála fyrir græningjaflokkinn MDG, segir nýjar reglur borgarinnar á næsta leiti. „Við viljum til að mynda loka fyrir notkun [rafskúta] að næturlagi, þann möguleika höfum við ekki haft fyrr en nú,“ segir hún og nefnir einnig reglur sem tóku gildi 1. júlí sem gera umsjónarmönnum bílastæða og annarra svæða kleift að setja upp skilti um að umferð rafskúta  á svæðinu sé bönnuð að viðlögðum sektum. Þá sagði Hareide samgönguráðherra við NRK í gær að reglur um mörk vínanda í blóði við rafskútuakstur væru rétt ókomnar.

NRK

NRKII (harmsaga Nikolai Ravn Aarskog)

NRKIII (sjö börn slösuðust á nokkrum dögum)

mbl.is