Ræðismaður sakaður um njósnir í Rússlandi

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Yfirvöld í Rússlandi vísuðu í dag eistneskum ræðismanni úr landi vegna meintra njósna. 

Rússneska öryggislögreglan sagði í yfirlýsingu á þriðjudag að ræðismaðurinn Mart Latte hafi verið handtekinn þegar hann tók við trúnaðarskjölum frá rússneskum ríkisborgara og að farið yrði með mál hans samkvæmt alþjóðalögum um njósnir. 

Í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins segir að Latte hafi verið skilgreindur sem óæskileg manneskja (e. persona non grata) og að hann hafi 48 klukkustundir til að yfirgefa landið. 

Talsmaður eistneska utanríkisráðuneytisins, Aari Lemmik, segir við AFP að Latte hafi verið ákærður fyrir „stuld á viðkvæmum upplýsingum“. Hún segir að ásakanirnar séu tilhæfulausar og að handtaka Latte hafi verið bein ögrun rússneskra stjórnvalda. 

Síðustu mánuði hefur samband Rússlands við vestræn ríki Evrópu farið síversnandi. Ásakanir um njósnir hafa verið á báða bóga og Rússar vísað úr landi ræðismönnum frá Úkraínu, Lettlandi og Litháen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert