Aukin hætta á taugasjúkdómi vegna Janssen

Sprauta fyllt með bóluefni Janssen.
Sprauta fyllt með bóluefni Janssen. AFP

Aukin hætta er á sjaldgæfum taugasjúkdómi hjá þeim sem fengið hafa Janssen-bóluefnið.

Frá þessu greinir Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, sem hefur fundið fylgni milli Janssen-bóluefnisins og sjaldgæfs taugasjúkdóms sem nefnist Guillain-Barré-heilkennið.

Þótt líkurnar séu litlar á að fá sjúkdóminn þá eru þær allt að fimmfalt meiri hjá þeim sem voru bólusettir með Janssen-bóluefninu.

Hundrað tilfelli

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa greint ríflega hundrað tilfelli sjúkdómsins meðal einstaklinga sem bólusettir voru með Janssen. Þess ber að geta að í Bandaríkjunum hafa 12,5 milljónir einstaklinga verið bólusettir með Janssen.

Af þessum hundrað tilfellum sem komu upp voru 95 álitin alvarleg og fólk lagt inn á spítala. Eitt þeirra leiddi til dauða. Flestir ná þó bata.

Hópurinn sem viðkvæmastur er fyrir sjúkdómnum er karlmenn yfir fimmtugt og hafa einkenni komið fram tveimur vikum eftir bólusetningu.

Eftirlitið telur þetta ekki ástæðu til að banna bóluefnið en verið er að útbúa upplýsingar um fylgikvillann sem munu fylgja bóluefninu framvegis.

Guillain-Barré-heilkennið

Taugasjúkdómurinn sem um ræðir hrjáir 3.000 til 6.000 Bandaríkjamenn. Hann lýsir sér þannig að ónæmiskerfi líkamans ræðst á taugafrumur hans og veldur þannig vöðvaverkjum, slappleika og í sumum tilfellum, lömun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert