Á sjúkrahúsi eftir látlausan hiksta í ellefu daga

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hrjáist af garnateppu og gæti þurft að gangast undir skurðaðgerð. Ríkisstjórnin greindi frá þessu eftir að forsetinn var lagður inn á spítala eftir stöðugan hiksta frá 3. júlí, þegar hann fór í tannaaðgerð.

Bolsonaro gat ekki leynt hikstanum í beinni útvarpssendingu í síðustu viku. „Þetta hefur gerst áður, kannski vegna lyfjanna sem ég er að taka. Ég hiksta allan sólarhringinn," sagði hann þá.

Hann kvartaði líka yfir hikstanum þegar hann talaði til stuðningsmanna sinna fyrir utan húsið sitt á þriðjudaginn. „Gott fólk, röddin mín er farin. Ef ég tala mikið þá kemur hikstinn aftur," sagði hann en hikstaði svo og bætti við að hikstinn væri nú þegar kominn. 

Bolsonaro sem er 66 ára gamall hefur ekki verið allskostar heppinn heilsufarslega séð. Hann veiktist af Covid-19 í fyrra og árið 2018 varð hann fyrir stunguárás sem hefur tekið hann langan tíma og þó nokkrar aðgerðir að jafna sig af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert