Íranar handteknir fyrir ætlað mannrán

Masih Alinejad. Mynd úr safni.
Masih Alinejad. Mynd úr safni. AFP

Fjórir Íranar hafa verið handteknir fyrir að skipuleggja rán á blaðamanni af írönskum uppruna í New York 

Ákæra á hendur mönnunum nafngreinir blaðamanninn ekki, en Masih Alinejad, sem fæddist í Íran, segir að ránstilræðið hafi beinst að sér. 

Í ákærunni eru mennirnir sagðir starfa fyrir leyniþjónustu Írans. Þá eru þeir sakaðir um að hafa reynt að fá eina manneskju í Bretlandi og þrjár í Kanada til Írans með blekkingum. Þau fimm sem áætlanir mannanna beindust að hafa öll verið gagnrýnin á stjórnvöld í Íran. 

Saksóknarar segja að íranska ríkisstjórnin hafi reynt að fá Alinejad til að ferðast til þróunarríkis, sem ekki er tiltekið nánar, þar sem ránið á henni átti að fara fram. Mennirnir eiga að hafa boðið ættingjum hennar í Íran fé fyrir að svíkja hana í hendur stjórnvalda, en ættingjarnir eiga allir að hafa hafnað tilboðinu. 

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að fjórmenningarnir hafi notið aðstoðar Niloufar Bahadorifar, sem er íbúi Kaliforníu-ríkis, en hún var handtekin 1. júlí. Hún er ekki sökuð um að hafa haft beina aðkomu að skipulagningu ránsins, en á að hafa veitt fjórmenningunum fjárstuðning. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert