Aðkoma Kína mikilvæg baráttunni

John Kerry, umhverfiserindreki ríkisstjórnar Joe Biden.
John Kerry, umhverfiserindreki ríkisstjórnar Joe Biden. AFP

John Kerry, umhverfiserindreki ríkisstjórnar Joe Biden, segir samstarf við Kína „einu leið heimsbyggðarinnar til þess að komast út úr þeirri sjálfsmorðs vegferð sem heimurinn er á“. Vísar hann þar til útblásturs kolefnis í andrúmsloftið.

„Sem stórþjóð, efnahagsleiðtogar og nú aðaldriffjöður loftslagsbreytinga á jörðinni, þá geta kínverjar svo sannarlega skipt sköpum í minnkun útblásturs á heimsvísu, á þessum krítíska áratug,“ sagði Kerry í ræðu sinni í London.

Fyrrum utanríkisráðherrann og þingmaðurinn bar saman baráttuna gegn loftslagsbreytingum og seinni heimsstyrjöldina og sagði verkefnið vera jafnt brýnt og ógna tilveru okkar á sama hátt og styrjöldin gerði.

Markmiðið ómögulegt án aðkomu Kína

Kerry nefndi einnig að án aðgerða Kína er snúa að minnkun útblásturs muni núverandi markmið um að takmarka hlýnun jarðar við minna en tvær gráður aldrei nást. Raunar sé það ómögulegt.

Það markmið var sett og samþykkt á umhverfisráðstefnunni í París 2015 og er hluti af Parísarsáttmálanum svokallaða.

Bretland kemur til með að halda næstu stóru umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna en hún verður haldin í nóvember næstkomandi í Glasgow.

Kerry sagði komandi ráðstefnu mikilvæga fyrir heimsbyggðina og að aðildarríkin gætu komið saman og náð utan um baráttuna við loftslagsbreytingar.

mbl.is