Segir Boris Johnson ekki hafa viljað bregðast við

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist hafa brugðist rétt við kórónuveirufaraldrinum.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist hafa brugðist rétt við kórónuveirufaraldrinum. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var tregur til að herða samkomutakmarkanir þegar Covid-smitum fjölgaði síðasta haust því hann taldi að þeir sem létust vegna veirunnar væru meira og minna eldri en 80 ára. Þetta segir Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Boris, í viðtali við BBC.

Hann sagði auk þess að Boris hefði viljað láta faraldurinn ganga yfir samfélagið í stað þess að eyðileggja efnahag landsins og sagt að hann hefði ekki lengur trú á að ofálag væri á heilbrigðiskerfinu.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa svarað ásökununum og sagt að forsætisráðherrann hafi gripið til „nauðsynlegra aðgerða til að vernda líf og lífsviðurværi fólks, í samræmi við vísindin“ í gegnum faraldurinn. Þá hafi stjórnvöld verndað heilbrigðiskerfið með þremur útgöngubönnum.

Var helsti ráðgjafi Johnson

Dominic Cummings var helsti ráðgjafi Boris Johnson frá júlí 2019 fram til nóvember 2020. Vorið 2020 var fjallað um það að hann hefði ferðast upp í sveit til foreldra sinna með einkenni Covid þegar útgöngubann stóð yfir.

Hann hlaut mikla gagnrýni fyrir en yfirvöld höfðu lagt bann við ónauðsynlegum ferðalögum. Frá því að hann hætti sem ráðgjafi Johnson hefur hann verið mjög gagnrýninn á viðbrögð yfirvalda við faraldrinum.

Í viðtalinu sagði Dominic Cummings að í upphafi faraldursins hafi Boris Johnson viljað halda áfram reglulegum fundum sínum með drottningunni en að hann hafi þurft að koma honum í skilning um að drottningin gæti dáið ef hún fengi veiruna.

„Fáðu Covid og lifðu lengur“

Smit voru fá í Bretlandi síðasta sumar en þeim fjölgaði hratt um haustið. Mikil umræða var innan ríkisstjórnarinnar um hvaða aðgerða væri þörf. Cummings sagði BBC að hann og aðrir ráðgjafar hafi þrýst á harðari takmarkanir frá miðjum september en Boris Johnson hafi þvertekið fyrir það.

Í október hafi dauðsföll vegna Covid verið orðin fleiri en hundrað á dag. Í Whatsapp-skilaboðum sem deilt var með BBC kemur fram að Johnson hafi verið uggandi vegna fjölda dauðsfalla. Miðgildi aldurs þeirra sem létu lífið væri hins vegar á milli 81 og 82 ára hjá körlum og 85 hjá konum.

„Það er yfir lífslíkum. Fáðu Covid og lifðu lengur,“ á að hafa staðið í skilaboðunum.   

„Nánast enginn undir 60 ára aldri fer á spítala, og nánast allir sem gera það lifa af. Ég er ekki lengur að kaupa það að ofálag sé á heilbrigðiskerfinu. Ég held við þurfum að endurhugsa þetta, það eru í mesta lagi þrjár milljónir yfir 80 ára í landinu. Þetta sýnir að við eigum ekki að setja á útgöngubann.“

Johnson tilkynnti hins vegar fjögurra vikna útgöngubann í lok október þar sem dauðsföllum fjölgaði og gögn bentu til að þau gætu skipt þúsundum á dag ef ekkert væri að gert.

mbl.is