Grunaður um að ætla að myrða konur

Bandarískir lögreglubílar. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Bandarískir lögreglubílar. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Karlmaður var handtekinn í Ohio í Bandaríkjunum í dag, grunaður um að skipuleggja skotárás sem beinast átti að kvenkyns nemendum við Háskólann í Ohio. Karlmaðurinn, Tres Genco, skilgreinir sig sjálfan sem hluta af hópi karlmanna sem kalla sig upp á enskuna „incel“. Hópurinn samanstendur af karlmönnum sem segjast lifa skírlífi tilneyddir. 

Genco var síðast handtekinn í marsmánuði í fyrra fyrir ólöglegan vopnaburð. Þá hafði hann birt fjölda hatursfullra færslna á samfélagsmiðlum sem beindust að konum. 

Hann er sagður hafa skrifað yfirlýsingu þar sem hann sagðist myndu „slátra“ konum „vegna haturs, öfundar og hefndargirni“, samkvæmt ákærunni á hendur honum.

Sama dag og hann á að hafa skrifað yfirlýsinguna hafði Genco leitað á netinu að upplýsingum um kvenfélög Háskólans í Ohio.  

Gæti átt lífstíðardóm yfir höfði sér

Í öðru bréfi Genco sagðist hann „stefna hátt“ og ætla sér að drepa 3.000 manns. 

Genco hafði hlotið grunnherþjálfun. 

Á síðasta ári var hann dæmdur til 17 mánaða fangelsisvistar vegna hryðjuverkahótana. honum var sleppt í janúarmánuði og var hann handtekinn að nýju í dag. Þá var hann með skotvopn á sér. 

Genco var ákærður í dag fyrir að gera tilraun til að fremja hatursglæp og fyrir að bera vélbyssu án þess að hafa tilskilið leyfi til þess. Genco gæti verið dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna brota sinna.

mbl.is