Tólf látist og þúsundir þurft að yfirgefa heimili sín

AFP

Hið minnsta tólf eru látnir og fleiri en 100 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna mikilla flóða í Zhengzhou í Kína. 

Hæsta veðurviðvörun er í gildi fyrir Henan-hérað þar sem um 94 milljónir búa. Yfirvöld í héraðinu segja flóðin vera viðburð sem verður „einu sinni á hundrað árum“. 

Gríðarleg rigning var á svæðinu yfir helgina sem hefur farið versnandi það sem af er vikunnar. Á þriðjudagskvöld voru flóð hafin í Zhengzhou og fleiri borgum í Henan. Stíflur og stöðuvötn hafa yfirflætt og kínverski herinn hefur verið sendur út til Henan til að stýra vatni yfirfullra áa. Þá hefur veðrið hamlað samgöngum í Henan. 

AFP

BBC greinir frá því að um 700 farþegar hafi verið fastir í lest í Zhengzhou í a.m.k. 40 klukkustundir. Farþegunum hafi verið útvegaður matur en birgðir um borð í lestinni séu nú litlar. 

Þá hafa heilbrigðisyfirvöld þurft að flytja um 600 alvarlega veika sjúklinga á milli sjúkrahúsa eftir að rafmagnslaust varð á First Affiliated-sjúkrahúsinu í Zhengzhou. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert