Handtóku smyglara á lúxusbílum

Lögreglan í Búlgaríu, Grikklandi og Ungverjalandi vann saman að því …
Lögreglan í Búlgaríu, Grikklandi og Ungverjalandi vann saman að því að uppræta smyglhringinn. AFP

Rannsókn búlgarsks rannsóknarteymis gegn skipulagðri glæpastarfsemi og lögreglunnar í Ungverjalandi og Grikklandi, með stuðningi Europol, hefur leitt til handtöku skipulagðs glæpahóps sem stóð fyrir smygli á fólki frá Tyrklandi til Grikklands. Leiðtogar glæpahópsins voru handteknir á miðvikudaginn.

Lögregla gerði áhlaup samtímis á fimmtán stöðum í Búlgaríu, Grikklandi og Ungverjalandi á miðvikudaginn og handtók 14 manns, þar af átta í Búlgaríu, fimm í Grikklandi og einn í Ungverjalandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol. 

Lagt var hald á 25 farartæki, þar með talið 15 lúxusbíla, ásamt fartölvum, símum, tækjum til að grafa eftir rafmynt og reiðufé.

Keyrðu á 250 km/klst og ollu slysum

Rannsókn á hópnum stóð yfir í tvö ár og á þeim tíma báru lögregluyfirvöld kennsl á fleiri en 100 lúxusbíla sem voru notaðir til verknaðarins. 66 þeirra höfðu verið gerðir upptækir áður en til áhlaupsins kom í vikunni.

Smyglararnir notuðu lúxusbílana til að smygla fólki og keyrðu á allt að 250 km/klst til að komast undan lögreglu. Þeir rukkuðu hverja manneskju sem þeir smygluðu um rúmlega tvö þúsund evrur, eða rúmlega 300 þúsund íslenskar krónur, og fluttu allt að fimmtán manneskjur í einu. Sumir voru geymdir í skotti bílanna.

Bæði smyglararnir og farandfólkið slasaðist í bílslysum á tímabilinu sem rannsóknin stóð yfir og einn smyglari lét lífið. 13 manns slösuðust í bílslysunum en alls smygluðu þeir 442 manneskjum.

Mikið er um smygl á fólki í norðurhluta Grikklands.  

mbl.is