Smitaður þóttist vera eiginkona sín

Sýnataka í Indónesíu. Mynd úr safni.
Sýnataka í Indónesíu. Mynd úr safni. AFP

Covid-smitaður maður var handtekinn eftir að hafa brugðið sér í dulargervi og þóst vera eiginkona sín til þess að geta flogið á milli landshluta í Indónesíu. 

Maðurinn, sem hefur einungis verið kallaður upphafsstöfum sínum, DW, klæddi sig í niqab, sem er slæða sem hylur allt andlitið utan augnanna, fyrir flugið. Þá framvísaði hann vegabréfi eiginkonu sinnar og neikvæðu PCR-prófi konunnar á flugvellinum. 

Ráðagerð mannsins hefði að öllum líkindum gengið upp ef hann hefði ekki farið úr slæðunni og í sín venjulegu föt þegar flugið var hálfnað. Flugfreyja um borð tók eftir fataskiptum og áhöfnin gerði lögreglu viðvart. Maðurinn var handtekinn þegar vélin lenti og strax sendur í sýnatöku. Kom í ljós að hann var smitaður af kórónuveirunni. 

Maðurinn er nú í einangrun en lögregla hyggst ákæra hann að henni lokinni, að því er fram kemur á BBC. 

mbl.is