Fellibylur bætist ofan á metflóð í Kína

Yfirvöld í Henan-héraði í Kína er núna fyrst farin að …
Yfirvöld í Henan-héraði í Kína er núna fyrst farin að geta hreinsað götur og opnað aftur fyrir bílaumferð. Þessi mynd var tekin í fyrradag, áður en ástandi batnaði. AFP

Ferju- og lestarferðum í Kína var víðast hvar aflýst í dag vegna fellibylsins In-Fa, sem nú nálgast austurströnd landsins, nærri stórborginni Sjanghæ. Það verður aðeins til þess að bæta gráu ofan á svart þar sem milljónir Kínverja berjast nú við mikil flóð. Tugir hafa þegar látist og hundruð þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Kínversk yfirvöld hafa gefið út þriðja stigs viðvörun vegna væntanlegs fellibyls, á kvarða þar sem sjötta stigs viðvörun er alvarlegust. Um 100 lestir hafa verið kyrrsettar á austurströnd landsins og því mörg þúsund manns sem verða strandaglópar.

Borgaryfirvöld í Sjanghæ hafa þá lokað almenningsgörðum og söfnum í borginni og biðla til íbúa að koma ekki saman í stórum hópum í dag utandyra og helst vera innandyra almennt.

Þar að auki hefur öllum stærri skipum verið lagt við Yangshan-höfn í Sjanghæ, það gera um 150 skip og hefur nokkrum þeirra, aðallega gámaflutningaskipum, verið gert að flýja óveðrið til annarra hafna.

Eins og fyrr segir hafa Kínverjar þurft að þola metflóð á undanförnum dögum, sérstaklega í Henan-héraði þar sem minnst 58 hafa látist og um 500 þúsund manns yfirgefið heimili sín. Þar eru stjórnvöld loks að koma skikki á svæðið, hreinsa götur og koma grunninnviðum aftur í lag.

mbl.is