Leyfi smitum að breiðast út til að ná hjarðónæmi

Skimun fyrir kórónuveirunni. Myndin er úr safni.
Skimun fyrir kórónuveirunni. Myndin er úr safni. AFP

Heilsusálfræðingur sem starfar með ráðgjafateymi stjórnvalda í Bretlandi (Sage) vegna kórónuveirufaraldursins sakar ráðherra ríkisstjórnarinnar um að leyfa smitum að breiðast út á meðal ungs fólks í því skyni að styrkja hjarðónæmi í landinu fyrir komandi vetur. 

Ásökunin var sett fram í kjölfar þess að síðustu takmörkununum vegna faraldursins var aflétt á Englandi á mánudag þegar næturklúbbar opnuðu dyr sínar í fyrsta sinn síðan heimsfaraldurinn fór að hrjá Breta. Þá var nálægðartakmörkunum aflétt sem og grímuskyldu, þrátt fyrir að mikið væri um smit í samfélaginu. 

Guardian greinir frá.

Sóttvarnaráðgjafar stjórnvalda gerðu ráðherrum ríkisstjórnar Bretlands grein fyrir áhyggjum sínum af þessum afléttingum, sérstaklega hvað varðar næturklúbbana þar sem gjarnan er léleg loftræsting og fólk á ekki kost á því að halda fjarlægð frá öðrum. 

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði frá því á mánudag að framvísa þyrfti grænum pössum, sem sýna fram á bólusetningu eða neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi, til þess að komast inn á næturklúbba og stóra viðburði en sú ráðstöfun tekur ekki gildi fyrr en í lok septembermánaðar. 

Boris Johnson tilkynnti afléttingar allra sóttvarnaaðgerða á mánudag og varð …
Boris Johnson tilkynnti afléttingar allra sóttvarnaaðgerða á mánudag og varð þá uppi fótur og fit. AFP

Sögð varpa ábyrgðinni yfir á almenning

„Það sem við sáum á mánudag er ákvörðun stjórnvalda um að smita sem flesta, eins fljótt og auðið er, á sama tíma og ríkisstjórnin hvetur fólk til að gæta varúðar og varpar þannig ábyrgðinni á afleiðingum afléttinganna yfir á almenning,“ sagði Robert West, heilsusálfræðingur við University College í London, í samtali við Guardian. Hann starfar í undirhópi atferlisvísinda Sage. 

„Það lítur út fyrir að ríkisstjórnin meti það sem svo að skaðinn [sem afléttingarnar] munu valda heilbrigðiskerfinu og heilsu þjóðarinnar sé þess virði í ljósi pólitískra vinsælda sem ríkisstjórnin öðlast sjálf vegna afléttinganna,“ sagði West og bætti því við að útlit væri fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar telji að stefna þeirra sé sjálfbær vegna útbreiddrar bólusetningar. 

Sajid Javid er heilbrigðisráðherra Bretlands. Hann greindist smitaður af kórónuveirunni …
Sajid Javid er heilbrigðisráðherra Bretlands. Hann greindist smitaður af kórónuveirunni fyrir um viku. AFP

Talið að 85% þurfi að verða ónæm

Mikil útbreiðsla smita, ásamt fjöldabólusetningu, ætti að geta fært Bretland nær hjarðónæmi þar sem nægilega margir íbúar ættu þá að verða sæmilega ónæmir fyrir Delta-afbrigði kórónuveirunnar, samkvæmt frétt Guardian. Óljóst er hversu hátt smithlutfall af hinu bráðsmitandi Delta-afbrigði kórónuveirunnar þarf að vera til þess að hjarðónæmi náist. Vísindamenn telja að hjarðónæmi gegn Delta-afbrigðinu náist ef 85% íbúa öðlast ónæmi gegn veirunni.

Ráðherrar ríkisstjórnar Bretlands hafa ítrekað neitað því að það sé markmið stjórnvalda að ná hjarðónæmi með því að leyfa smitum að dreifa úr sér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina