Á að halda Ólympíuleika?

Thomas Bach, forseti alþjóðaólýmpíunefndarinnar, hefur áhyggjur af því að íþróttamenn …
Thomas Bach, forseti alþjóðaólýmpíunefndarinnar, hefur áhyggjur af því að íþróttamenn séu of pólitískir og skemmi fyrir öðrum láti þeir skoðanir sínar í ljós. AFP

Þegar Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan árið 2020 var frestað um heilt ár „út af dálitlu“ var vonast til að leikarnir yrðu hátíð sem markaði að heimsbyggðin væri laus við vágestinn sem bar að garði í byrjun árs í fyrra. Sú von varð enn líklegri til að verða að veruleika í lok ársins þegar bólusetningar við kórónuveirunni hófust.

En bólusetningar hafa gengið illa í Japan og aðeins náð flugi síðustu vikur. Hafa Japanar því átt í stökustu vandræðum með faraldurinn síðustu mánuði og var nú á dögunum lýst yfir neyðarástandi í Tókýó vegna fimmtu bylgju faraldursins.

Leikarnir hófust á föstudag með setningarathöfn sem haldin var í skugga þess að meirihluti íbúa Japans vildi að leikunum yrði frestað aftur eða þeim aflýst. Að minnsta kosti ef marka má skoðanakannanir þar í landi.

Mikið í húfi

Nokkuð er síðan gefið var út að erlendir áhorfendur yrðu ekki leyfðir á leikunum. Þegar neyðarástandi var svo lýst yfir í Tókýó 8. júlí varð ljóst að innlendir áhorfendur mættu ekki heldur mæta, að minnsta kosti á þá viðburði sem haldnir verða í borginni. Mun neyðarástandið standa fram yfir leikana hið minnsta.

Gert er ráð fyrir því að kostnaður borgarinnar við leikana muni fara yfir 26 milljarða bandaríkjadala, jafngildi rúmlega þrjú þúsund milljarða króna. Sá kostnaður mun að mestu ekki verða endurheimtur í formi tekna enda tapast allar tekjur af miðasölu. Þá munu þær tekjur tapast sem skapast hefðu af þeim mikla fjölda ferðamanna sem hefðu komið til borgarinnar vegna leikanna og gist á hótelum og borðað á veitingastöðum hennar.

Mikið er þó í húfi fyrir stjórnvöld í Japan og alþjóðaólympíunefndina að halda leikana. Fyrir það fyrsta eru gríðarlegar sjónvarpstekjur sem fást af sölu á sýningarrétti á leikunum og auglýsingatekjur sömuleiðis. Ef leikunum hefði verið aflýst er talið að alþjóðaólympíunefndin hefði þurft að endurgreiða um fjóra milljarða bandaríkjadala, jafngildi tæplega 500 milljarða króna, til þeirra sem keypt hefðu sýningarrétt á leikunum. Upphæðin er um 73% af tekjum nefndarinnar.

Þá er talið að ímyndarskaðinn sem stjórnvöld hefðu hlotið af því að aflýsa leikunum sé ómældur en leikarnir áttu að vera eins konar auglýsing fyrir „lífsstílsveldið“ sem Japan er orðið. Þá eru þingkosningar á dagskrá í Japan í haust og nokkuð ljóst að Yoshihide Suga, forsætisráðherra landsins, má ekki við því að leikunum verði frestað á ný en aðeins 33% Japana segast styðja Suga í skoðanakönnunum.

Sú staðfesta alþjóðaólympíunefndarinnar og japanskra stjórnvalda að ætla að halda leikana þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna um að það geti kostað mannslíf og sett aukið álag á heilbrigðiskerfi Japans, sem má alls ekki við því, hefur vakið mikla reiði meðal almennings.

Gagnrýnin stafar að einhverju leyti af því að undanfarin ár hefur kastljósinu verið beint að dekkri hliðum Ólympíuleikanna. Ber þar fyrst að nefna þær miklu byggingaframkvæmdir sem gestgjafar leikanna þurfa að ráðast í. Kostnaðurinn fellur svo yfirleitt á borgarbúa. Viðhald á byggingunum er kostnaðarsamt og því eru þær oft látnar standa eftir auðar.

Það virðist því oft í þágu stjórnmálamanna frekar en íbúa að leikarnir séu haldnir. Stjórnmálamennirnir líta vel út á meðan borgarbúar þurfa að greiða niður skuldir vegna leikanna og sitja eftir með niðurníddar byggingar.

Halda pólitík frá pólitískum leikum

Síðustu ár hefur hlutverk og staða íþróttamanna breyst til muna. Þeir láta sig samfélagsleg málefni varða og sætta sig ekki við að „þegja bara og drippla“ eins og LeBron James var sagt að gera um árið. Margir þeirra líta svo á að það sé skylda þeirra að láta í sér heyra og hafa mörkin milli aðgerðasinna og íþróttamanna orðið æ óskýrari.

Gera má ráð fyrir að margir íþróttamannanna vilji beina þeirri miklu athygli sem Ólympíuleikarnir fá að þeim málefnum sem þeim er annt um. Reglur Ólympíuleikanna kveða hins vegar á um að ekki megi nota vettvanginn til að koma á framfæri pólitískum skoðunum.

Þó var slakað á reglunum fyrir leikana í ár og mega nú keppendur vekja athygli á sínum málstað fyrir keppni, til dæmis í kynningum þeirra, en ekki meðan á keppni stendur eða þegar verðlaun eru afhent. Hefur Thomas Bach, forseti nefndarinnar, sagt að verðlaunaafhendingarnar eigi að heiðra keppendur og sú stund kynni að verða eyðilögð fyrir öðrum sé persónulegum skoðunum komið á framfæri.

Rauði þráðurinn í þessu máli virðist vera að nefndin vilji halda pólitík frá leikunum. Margir spyrja sig þó hvort leikarnir séu ekki hvort eð er pólitískir ef litið er á ferlið við að úthluta leikunum til gestgjafanna.

Konur í stærra hlutverki

Það er þó margt jákvætt hægt að segja um leikana sem fara nú fram í Tókýó. Ólympíuleikarnir eru hátíð þar sem bestu íþróttamenn heims koma saman og leika listir sínar. Um leið og þeir keppa um hið eftirsótta ólympíugull blása íþróttamennirnir þeim sem á horfa í fögnuð brjóst. Úr verður eins konar fögnuður mannkynsins og alls þess sem það getur afrekað. Þess vegna bítast oft stærstu borgir heims um að fá að halda leikana.

Á leikunum í Tókýó eru konur stærri hluti keppenda enn nokkru sinni fyrr. 48,8% keppenda eru konur samanborið við 45% á leikunum fyrir fimm árum. Alþjóðaólympíunefndin hefur það að markmiði að ýta undir kynjajafnrétti og hefur til þess sagt skilið við nokkrar greinar þar sem aðeins karlar kepptu og bætt við kvennaflokki í öðrum greinum í staðinn. Þá munu konur og karlar keppa saman í 4x400 metra boðhlaupi, tvenndarkeppni í borðtennis og fjögurra manna boðhlaupi í þríþraut svo eitthvað sé nefnt.

Nánar er fjallað um Ólympíuleikana í Tókýó í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »