Covid-smitum fer fjölgandi í Bandaríkjunum

Dr. Anthony Fauci.
Dr. Anthony Fauci. AFP

Bandaríkin stefna í ranga átt í baráttu sinni við kórónuveirufaraldurinn en smitum milli óbólusettra mun fjölga til muna, að mati smitsjúkdómasérfræðinga í Bandaríkjunum.

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, segir Delta-afbrigðið vera að valda nýrri bylgju á svæðum þar sem er lágt hlutfall bólusettra.

Hann segir heilbrigðisyfirvöld vera að íhuga það að setja aftur á grímuskyldu fyrir bólusetta til þess að koma í veg fyrir fleiri smit.

Einnig er verið að skoða það að bjóða þriðja skammtinn af bóluefnum til fólks sem er í áhættuhópum að sögn Fauci.

162,7 milljónir fullbólusettar

Fauci kallar ástandið í Bandaríkjunum „faraldur meðal óbólusettra“. Yfir 162,7 milljónir manna, eða um 49% íbúa, hafa verið fullbólusettir og er því rúmlega helmingur aðeins bólusettur að hluta eða með öllu óbólusettur. 

Bandaríkjamenn voru í forystu hvað varðar bólusetningar þar til í apríl þegar byrjaði að hægjast á bólusetningum.

Bólusetningarhlutfallið er sérstaklega lágt í Suðurríkjum Bandaríkjanna, þar sem innan við helmingur íbúa er bólusettur.

99,5% dauðsfalla eiga sér stað hjá óbólusettum

Smitum fer fjölgandi í Bandaríkjunum eftir gott gengi í maí og júní. 34 milljónir manns hafa smitast í Bandaríkjunum og um 610 þúsund dauðsföll má rekja til Covid-19.

Þróun smita er rakin til Delta-afbrigðisins sem virðist vera bráðsmitandi. Mesta aukning á smitum er í ríkjum á borð við Flórída og Texas.

Talið er að 99,5% dauðsfalla vegna kórónuveirunnar verði meðal óbólusettra einstaklinga.

mbl.is