Fimm barna móðir vann 31 milljón króna

Vinningurinn hljóðaði upp á 250.000 bandaríkjadali.
Vinningurinn hljóðaði upp á 250.000 bandaríkjadali. Reuters

Fimm barna bandarísk móðir, sem starfar sem sendill fyrir Uber Eats, hafði heldur betur heppnina með sér þegar hún vann vinning sem hljóðar upp á 250 þúsund bandaríkjadali (31,5 milljónir króna) á skafmiða í Maryland-lottóinu í Bandaríkjunum fyrir nokkrum vikum.

Vinningshafinn, sem kýs að halda nafnleynd, sat í bílnum sínum á milli sendiferða í vinnunni þegar hún áttaði sig á því að hún hefði unnið stóra vinninginn, samkvæmt frétt fréttastofunnar CNN.

„Ég var að missa vitið þarna inni í bílnum!“ segir hún í samtali við starfsfólk Maryland-lottósins.

„Ég kíkti í appið í símanum og sá að vinningurinn hljóðaði upp á 250 þúsund bandaríkjadali.“

Móðirin var, eins og við má búast, í skýjunum með fréttirnar.

„Ég sagði við sjálfa mig: Ég vil ekki sendast með mat lengur!“

Vinninginn fékk hún á svokallaðan CASH-skafmiða þar sem stærsti vinningurinn var einmitt 250 þúsund bandaríkjadalir en miðinn sjálfur kostaði aðeins 10 bandaríkjadali.

Samkvæmt upplýsingum frá Maryland-lottóinu kaupir umrædd kona sér reglulega skafmiða sem hún skefur inni á milli sendinga hjá Uber Eats. 

Þá hefur hún áður fengið nokkra smærri vinninga á skafmiða en kvartmilljónin er klárlega langstærsti vinningurinn sem hún hefur fengið.

Konan hyggst nota vinninginn til að borga reikninga, styðja fjárhagslega við börnin sín og upp í útborgun á nýju húsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert