Stór loftsteinn lenti í Noregi

Þetta skjáskot úr vefmyndavél í Voksenlia í Sørkedalen frá því …
Þetta skjáskot úr vefmyndavél í Voksenlia í Sørkedalen frá því klukkan 01:08:17 í nótt að norskum tíma sýnir hvernig bjart verður sem að degi þegar loftsteinninn þýtur um rökkvaðan næturhimininn. Skjáskot/Vefmyndavél

Fjöldi fólks í Noregi og Svíþjóð sá stóran loftstein sem kom inn í andrúmsloft jarðar á 16 til 20 kílómetra hraða á sekúndu laust eftir klukkan eitt í nótt, það er ellefu í gærkvöldi að íslenskum tíma, og gera stjörnufróðir menn því skóna að steinninn hafi endað för sína einhvers staðar á milli Lier og Drammen og skollið þar til jarðar.

„Við konan mín heyrðum miklar drunur og sáum tvo skæra ljósglampa. Þetta er greinilega stór loftsteinn sem hefur komið inn yfir Austurlandið. Þetta er stórviðburður,“ segir Morten Bilet hjá Norsk meteornettverk, áhugamannasamtökum um loftsteina sem stofnuð voru árið 2013, í samtali við norska dagblaðið VG.

Meiri að umfangi en vaninn er

Kveður Bilet steininn líkast til eiga upptök sín í belti smástirna milli Mars og Júpíters og segir mannskap frá Norsk meteornettverk hafa verið kominn á fullt snemma í morgun við gagnasöfnun og séu kumpánar hans þar helst á því að steinninn hafi komið til jarðar í Finnemarka, skammt frá Lier.

„Hann hefur komið úr norðaustri, við vildum gjarnan geta verið með nákvæmari upplýsingar, en við vinnum sleitulaust að því að kanna þetta núna,“ segir Bilet spenntur og kveður steininn hafa verið meiri að umfangi en vanalegt teljist.

„Þegar um svona stóran stein er að ræða er nær útilokað að fá sýn yfir öll atriði, það hefði verið einfaldara í dæmi léttari steins sem hefði þá haft brattara aðflugshorn. Við vitum heldur ekki enn hvort hann er úr járni eða grjóti, en í ljósi reynslunnar er þetta líklega grjót,“ segir Bilet enn fremur, en það var hann sem mat það svo að hraði steinsins hefði verið 16 til 20 kílómetrar á sekúndu.

Tilkynningar streymdu til lögreglu

Lögreglan í Ósló segir allar símalínur hafa orðið rauðglóandi hjá embættinu eftir að ljósagangsins varð vart í næturhúminu. „Til okkar streymdu tilkynningar, hvort tveggja frá almenningi og okkar eigin fólki,“ segir Per Iversen varðstjóri í samtali við VG. Hafi tilkynningarnar borist frá svæðinu allt frá Halden til Mjøsa, en reikna má með að steinsins hafi orðið vart á allstóru svæði, VG bárust ábendingar frá öllu höfuðborgarsvæðinu auk Þrándheims, Stavanger og Bergen.

„Mjög skær glampi sást rétt í þessu yfir Austurlandi og fylgdu honum drunur og reykslóð, þetta hefur verið stór loftsteinn,“ skrifar Eirik Newth stjarneðlisfræðingur á Twitter-svæði sitt.

Sænskir fjölmiðlar greina enn fremur frá því að Svíar hafi orðið gestsins varir. Aftonbladet skrifar að fólk hafi séð til ferða hans yfir Munkedal en einnig hafi tilkynningar borist frá Dölunum, Värmland, Närke, Sörmland, Uppland og Östergötland.

VG

NRK

TV2

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert