Sérfræðinganefnd samþykkir Moderna fyrir unglinga

Bandarískur hjúkrunarfræðingur með bóluefni Moderna.
Bandarískur hjúkrunarfræðingur með bóluefni Moderna. AFP

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hefur samþykkt notkun Spikevax, bóluefnis Moderna, til notkunar hjá börnum á aldrinum 12 til 17 ára. Bóluefnið er þegar heimilt til notkunar hjá fólki 18 ára og eldra.

Notkun bóluefnisins Spikevax hjá börnum frá 12 til 17 ára verður með sama hætti og hjá fólki 18 ára og eldra. Það á að gefa í vöðva í upphandlegg tvisvar sinnum og eiga fjórar vikur að líða á milli bólusetninga, að því er segir á vef Lyfjastofnunar.

Áhrif Spikevax voru skoðuð í rannsókn á 3.732 börnum á aldrinum 12 til 17 ára. Þessi rannsókn, sem er í gangi, er gerð í samræmi við Spikevax-rannsóknaráætlun barna, sem var samþykkt af sérfræðinefnd EMA í barnalækningum.

Rannsóknin leiddi í ljós að Spikevax framleiddi sambærilega svörun mótefna hjá 12 til 17 ára börnum og fékkst í niðurstöðu hjá ungu fullorðnu fólki á aldrinum 18 til 25 ára. Að auki þróaði ekkert af þeim 2.163 börnum, sem fengu Covid-19, mótefni, samanborið við fjögur börn af 1.073 sem fengu lyfleysu.

Í ljósi þessara niðurstaðna gat sérfræðinefndin því ályktað að virkni Spikevax hjá 12 til 17 ára börnum er svipuð og hjá fullorðnum einstaklingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert