Sjúklingum beint annað vegna mikilla flóða

Bílaumferð í flóðunum í Lundúnum.
Bílaumferð í flóðunum í Lundúnum. AFP

Tvö sjúkrahús í Lundúnum hafa biðlað til sjúklinga að halda sig heima eftir að vatn flæddi yfir bráðamóttökur sjúkrahúsanna tveggja. 

Whipps Cross sjúkrahúsið í austurhluta Lundúna og Newham sjúkrahúsið hafa hvatt sjúklinga til að leita annað og sjúkrabifreiðum hefur sömuleiðis verið beint annað vegna flóðanna. 

Miklar rigningar hafa valdið talsverðum flóðum. Tjón hefur orðið á heimilum og flætt hefur yfir vegi og lestarstöðvar. 

AFP

Fram kemur á vef BBC að slökkvilið Lundúna hafi sinnt um 300 útköllum vegna flóðanna á nokkurra klukkustunda tímabili. Yfirvöld hafa hvatt fólk til að halda sig heima. 

Fjölmargar götur höfuðborgarinnar hafa verið lokaðar vegna flóðanna. 

Víða um England eru í gildi veðurviðvaranir vegna flóðanna. 

mbl.is