Helmingur greinist ekki fyrr en á sjúkrahúsi

Skimað á Englandi.
Skimað á Englandi. AFP

Meira en helmingur spítalainnlagna vegna Covid-19 á Englandi eru í raun sjúklingar sem lagðir voru inn af öðrum ástæðum, en greindust með veiruna eftir innlögn. Þetta kemur fram í dagsskýrslu frá breskum heilbrigðisyfirvöldum sem lekið var til Telegraph.

Gögnin benda til þess að fjöldi innlagna sé flokkaður sem Covid-tengdar innlagnir þrátt fyrir að sjúklingarnir hafi ekki greinst fyrr en við hefðbundna skimun á sjúkrahúsi eftir að hafa verið lagðir inn vegna annarra kvilla. 

Samkvæmt gögnunum falla 56% innlagna á sjúkrahús vegna Covid-19 í þennan flokk. Í tölum yfir innlagnir sem bresk stjórnvöld uppfæra daglega er þannig ekki gerður greinarmunur á þeim sem veikjast alvarlega af Covid-19 og þurfa á innlögn að halda og þeim sem hefðu e.t.v. aldrei vitað að þeir höfðu fengið veiruna ef ekki væri fyrir sýnatöku á sjúkrahúsi. 

Álagið mun minna en talið var

Sérfræðingar segja að gögnin bendi til þess að álag á breska heilbrigðiskerfið (e. NHS) af völdum kórónuveirunnar sé mun minna en talið var. 

Í gögnunum eru 780 sjúklingar sem lagðir voru inn á sjúkrahús síðastliðinn fimmtudag flokkaðir nánar. 44% þeirra höfðu greinst með veiruna síðustu 14 daga í aðdraganda innlagnar en 56% höfðu ekki greinst með veiruna fyrr en eftir innlögn. 

„Þessi tölfræði er gríðarlega mikilvæg og það ætti að birta hana áfram,“ hefur Telegraph eftir Carl Heneghan, prófessor við Oxford-háskóla. 

„Þegar fólk heyrir talað um Covid-innlagnir gerir það ráð fyrir að Covid sé líklega ástæðan fyrir innlögninni, en þessi tölfræði sýnir annað – þetta snýst um að Covid greinist þegar leitað er eftir því með prófum,“ segir Heneghan, sem hefur kallað eftir því að stjórnvöld birti skýrari tölfræði yfir innlagnir þar sem þau tilfelli þar sem Covid-19 er ástæða innlagnar eru skilgreind sérstaklega. Annað gæti verið villandi. 

mbl.is