18 létust í árekstri

Mynd frá árekstrinum.
Mynd frá árekstrinum. Ljósmynd/Lögreglan í Uttar Pradesh

Hið minnsta 18 farandverkamenn létust í árekstri vörubíls og rútu sem hópurinn var í, í Uttar Pradesh á Indlandi snemma á miðvikudagsmorgun. 

Rútan var á leið frá Haryana til Bihar, sem er um 1.300 kílómetra akstur, þegar rútan bilaði í Barabanki-héraði. Sumir voru enn um borð í rútunni á meðan aðrir sváfu við hlið hennar þegar slysið varð. 

BBC hefur eftir lögreglu á Indlandi að farþegar um borð í rútunni hafi verið alltof margir. 

Yamuna Prasad, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Barabanki, segir að einhverjir farþeganna hafi ákveðið að hvíla sig við hlið rútunnar á meðan rútubílstjórinn leitaði að bifvélavirkja. 

„Þetta er óheppilegt atvik. Rútan bilaði líklegast vegna þess að 140 farþegar voru um borð þegar leyfilegur hámarksfjöldi farþega var 65. Við erum að aðstoða fjölskyldurnar,“ segir Prasad. Engir gluggar voru á rútunni þar sem hún var búin loftkælingu. 

Hið minnsta 30 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús í Barabanki. Margir þeirra eru þungt haldnir. 

mbl.is