Ríkisstarfsmenn krafðir um bólusetningarstöðu

Joe Biden talar ítrekað um faraldur hinna óbólusettu þessi dægrin.
Joe Biden talar ítrekað um faraldur hinna óbólusettu þessi dægrin. MANDEL NGAN/AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, kynnti í dag nýjar aðgerðir til þess að stemma stigu við útbreiðslu Delta-afbrigðisins þar ytra. Ríkisstarfsmenn munu nú þurfa að gefa upp bólusetningarstöðu sína. Séu þeir ekki fullbólusettir eru starfsmennirnir skyldugir til þess að vera með grímu og fara í skimun.

„Við erum með bjargir til þess að koma í veg fyrir að Covid-19 loki vinnustöðum, skólum og samfélaginu eins og við sáum gerast í fyrra,“ sagði Biden í ræðu sinni í dag þar sem kynntar voru nýjar áherslur stjórnarinnar í baráttunni við veiruna.

Áður en Biden flutti ræðu sína var tilkynnt um áformin, það er að allar fjórar milljónir ríkisstarfsmanna og verktakar sem starfa fyrir ríkið þyrftu að gefa upp bólusetningarstöðu sína.

Bólusetning eða skimanir vikulega

Þá kom einnig fram að þeir sem munu ekki gefa upp að þeir séu fullbólusettir muni þurfa að vera með grímu við störf, halda fjarlægð við samstarfsmenn og fara í skimun annaðhvort einu sinni eða tvisvar í viku.

Aðgerðin kemst býsna nærri því að geta talist bólusetningarskylda fyrir starfsmenn ríkisins. En það var tekið til skoðunar af ríkisstjórn Bidens sem möguleg leið til þess að verja ríkisstarfsmenn og setja gott fordæmi fyrir einkageirann.

„Við erum ekki alveg laus úr viðjum veirunnar því það sem er að gerast í Bandaríkjunum núna er faraldur. Faraldur hinna óbólusettu,“ sagði Biden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert