Lík Esther Dingley fannst í Pýreneafjöllum

Esther Dingley og Dan Colegate.
Esther Dingley og Dan Colegate. Ljósmynd/Dan Colegate

Lík Esther Dingley, breskrar göngukonu sem hvarf í nóvember 2020, er fundið í Pýreneafjöllum. 

Dingley, sem var 37 ára, sást síðast ein á göngu nærri landamærum Frakklands og Spánar 22. nóvember. 

Móðir Dingley, Ria Bryant, og kærasti hennar, Dan Colegate, segjast „miður sín“ í yfirlýsingu. 

Colegate hafði farið fótgangandi yfir 1.130 kílómetra svæði í fjallgarðinum í leit sinni að Dingley. 

„Við höfum öll vitað í marga mánuði að líkurnar á því að fá að faðma Esther aftur, finna fyrir hlýju hennar og sjá fallega brosið hennar og herbergið lýsast upp með komu hennar voru litlar, en með þessari staðfestingu hefur sú daufa von slokknað. Orð fá því ekki lýst hve átakanlegt þetta er. Aðeins eitt bein hefur fundist og engin ummerki eru um búnað á svæðinu. Það er því ekki vitað hvað gerðist,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu Dingley. 

Fjölskyldan segir að leitarhópar séu enn við leit á svæðinu í þeirri von að búnaður Dingley finnist svo hægt verði að varpa ljósi á atburðarásina í aðdraganda dauða hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert