Mótmæla takmörkunum og bólusetningum

Mótmælin snúa að bólusetningum og takmörkunum.
Mótmælin snúa að bólusetningum og takmörkunum. AFP

Nokkur hundruð mótmælendur söfnuðust saman í borginni Tel Aviv í Ísrael í dag. Tilefni mótmælanna voru nýjar takmarkanir vegna faraldursins. Einnig mótmæltu þeir bólusetningum almennt. Fjöldi smitaðra og innlagna á spítala er meiri en verið hefur svo mánuðum skiptir þar í landi.

Heilbrigðisráðuneyti Ísraels tilkynnti í dag að 2.435 hefðu greinst með kórónuveiruna í gær. Fleiri hafa ekki greinst smitaðir á einum og sama deginum síðan í mars. Uppgang smita og innlagna má rekja, líkt og víðast hvar í heiminum, til Delta-afbrigðis veirunnar.

326 voru lagðir inn á spítala í gær og er það mesti fjöldi innlagna síðan í apríl. Það er þó töluvert frá mesta fjölda innlagna síðan faraldurinn hófst, en rúmlega tvö þúsund manns voru lagðir inn á spítala daglega í janúar.

Nýjar takmarkanir í gildi

Ísraelar hafa undanfarna daga unnið að því að gefa eldra fólki svokallaða örvunarskammta, til þess að auka virkni bóluefnisins. Auk þess hefur grímuskylda verið boðuð að nýju og þá hafa svokallaðir „grænir passar“ verið teknir í gagnið aftur. Passarnir vísa þá til þess að framvísa þurfi bólusetningarvottorði ætli fólk sér að fara inn á veitingastaði, líkamsræktarstöðvar og hótel.

Vöxtur smita í Ísrael er skref aftur á bak í baráttunni við veiruna þar í landi, sér í lagi í ljósi þess árangurs sem þjóðin náði í bólusetningum nú í vor en Ísraelum tókst með víðtækri bólusetningarþátttöku að koma daglegum smitum úr 10 þúsund niður fyrir 100.

Jafnvægi milli aðgerða og eðlilegs lífs

Nitzan Horowitz, heilbrigðisráðherra Ísraels, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að finna þyrfti jafnvægi milli takmarkana og eðlilegs lífs.

„Efnahagskerfið verður að geta starfað eðlilega. Ég vil alls ekki þurfa að beita hörðum takmörkunum svo sem útgöngubanni og mun forðast það hvað sem það kostar. Allt er enn sem komið er opið, en við verðum að nota grímu og við verðum að láta bólusetja okkur.“

Nærri 60% þjóðarinnar hafa fengið tvo bóluefnisskammta, að mestu leyti með bóluefni Pfizer. Þó er um ein milljón Ísraela, af rúmlega níu milljónum, sem neitar að láta bólusetja sig þrátt fyrir að vera gjaldgeng í bólusetningu.

mbl.is