Tjáð að vinurinn væri látinn

Andreas Cappelen og Pil Cappelen Smith reka bókabúðina Cappelens Forslag …
Andreas Cappelen og Pil Cappelen Smith reka bókabúðina Cappelens Forslag sem er orðaleikur þar sem orðið forslag, uppástunga eða tillaga, kemur í stað hins hefðbundna „forlag“ eða útgáfa. Á innfelldu myndinni sést dánartilkynningin sem Smith barst um vin sinn og samstarfsmann. Ljósmynd/Úr einkasafni

Óprúttnir aðilar, sem beita lýðnetinu sem svikavef í gróðabrölti sínu, færa sig reglulega upp á skaftið, eins og ríkulega hefur verið sagt af í fréttum. Upplognar andlátstilkynningar eru nú það nýjasta í þessum efnum í Noregi, og án efa víðar, eins og vinirnir Andreas Cappelen og Pil Cappelen Smith fengu að reyna.

Þeir félagar og nafnar reka saman bókaverslunina Cappelens Forslag í Ósló, en Andreas Cappelen er auk þess töluvert þekktur leikari í Noregi og Smith teiknaði ásamt öðrum fyrstu teiknimyndaþættina sem norska ríkisútvarpið NRK framleiddi, Halvseint. Eru þeir félagar æskuvinir.

Annað bjó að baki

„Ég fæ tilkynningar gegnum Google þegar nafnið á versluninni okkar dúkkar upp einhvers staðar á netinu og þar fékk ég allt í einu tilkynningu um að Andreas væri látinn. Fyrir neðan byrjaði svo æviágrip hans sem ég sá að var rétt,“ segir Smith í samtali við NRK, en andlátstilkynningin var einmitt látin líta út fyrir að eiga rætur sínar að rekja til ríkismiðilsins.

Annað efni reyndist hins vegar á bak við tilkynninguna um dauða samstarfsmannsins og vinarins, þegar Smith smellti á hana til að sjá meira. Þá opnaðist honum falsað viðtal, sem látið var líta út fyrir að vera á vegum norska dagblaðsins VG, þar sem hinn kunni norski áhrifavaldur Sophie Elise sagði frá því hvernig hún komst í miklar álnir í viðskiptum með rafmyntina bitcoin.

Eru lesendur þar hvattir til að skrá sig til leiks gegnum skráningarform og hefja fjárfestingar í rafmyntum almennt. Er þetta falsaða viðtal við Elise ekki einsdæmi þar sem áður hafa gengið um netið fölsuð viðtöl, sem virðast vera af síðum NRK, svo sem við leikarann Kristofer Hivju, sem er Íslendingum að góðu kunnur úr þáttunum Twin, og hótelkónginn Olav Thon.

Smith vissi að Cappelen var á ferðalagi og játar að honum brá illilega við falstíðindin. „Andlát hans kom nú ekki heim og saman við mínar upplýsingar, en ég tók þessu strax af alvöru og hringdi í Andreas og spurði hvort hann væri dáinn. Hann var það ekki, bara í fríi í Stavanger með fjölskyldunni,“ segir Smith.

Tilkynningin um andlát leikarans er vinstra megin, en hægra megin …
Tilkynningin um andlát leikarans er vinstra megin, en hægra megin er efnið sem bjó að baki þegar smellt var á tilkynninguna til að lesa meira, falsað viðtal við áhrifavaldinn Sophie Elise þar sem reynt er að fá lesandann til að skrá sig til leiks í fjárfestingu í rafmynt. Skjáskot

Hann áttaði sig fljótlega á því sem bjó að baki dánartilkynningunni ótímabæru. „Ég fylgist nú með því sem er í gangi og geld auðvitað varhug við svona löguðu, en mamma gamla hefði auðveldlega getað hrokkið upp af hefði hún fengið svona póst sem fjallaði um mig,“ segir Smith og er svindlurunum gramur. „Ég myndi vilja sjá þá hýdda nakta niðri á Karls Jóhannsgötu. Svona lagað getur haft svo miklu alvarlegri afleiðingar en það hafði fyrir mig. Ég þekki marga sem hefðu trúað þessu,“ segir bóksalinn argur.

Hélt að rætt væri um afa hans

Cappelen, hinn „látni“, tekur málinu með ró, en játar þó að óþægilegar kenndir hafi vaknað við að lesa um eigið andlát. „Þetta leit út eins og NRK væri að greina frá dauða mínum, það var mjög undarlegt en um leið mjög augljóst gabb svo ég hristi þetta bara af mér,“ segir hann.

Kveðst hann í fyrstu hafa talið að þarna sveimaði gömul tilkynning um afa hans og alnafna, sem lést árið 2008, þar til hann sá í æviágripinu sagt frá því að hann hefði leikið í tólf kvikmyndum. „Þetta er allt á netinu svo þeir hafa tekið sér góðan tíma í rannsóknarvinnuna um mig,“ heldur hann áfram og hvetur almenning til að vera vakandi gagnvart fjársvikastarfsemi ýmissi sem þekkir orðið fá landamæri.

Øystein Andreassen, deildarstjóri NC3 hjá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos, sem er heiti netafbrotadeildarinnar þar á bæ, Nasjonalt Cyberkrimsenter, segir hér komið afbrigði af fjölda annarra svindlaðferða sem hans fólk þekkir til. Þar sé takmarkið að ginna fólk til að gefa upplýsingar sem nýtast við að hafa það að féþúfu eða telja því trú um að það sé að fjárfesta í rafmynt.

Øystein Andreassen, deildarstjóri NC3, eða Nasjonalt Cyberkrimsenter, hjá rannsóknarlögreglunni Kripos, …
Øystein Andreassen, deildarstjóri NC3, eða Nasjonalt Cyberkrimsenter, hjá rannsóknarlögreglunni Kripos, kveður brotamennina laga sínar aðgerðir að gagnaðgerðum um leið og þær koma fram. Ljósmynd/Kripos

„Netsvindlið tekur stöðugt á sig nýjar myndir. Glæpamennirnir gerast æ hugmyndaríkari þegar kemur að því að nálgast viðkvæmar upplýsingar,“ segir Andreassen og bætir því við að aðferðafræðin sé í stöðugri mótun. „Við sjáum að brotamennirnir laga sínar aðferðir strax að því þegar nýjar gagnaðgerðir koma fram.“

Barn á sjúkrahúsi

„Við vitum til þess að svindlarar hafi spunnið upp persónulega harmleiki,“ segir Vidar Korsberg Dalsbø, upplýsingafulltrúi DNB-bankans, við NRK, „til dæmis hafa þeir sent foreldrum SMS-skeyti um að barnið þeirra liggi á sjúkrahúsi og til þess að fá frekari upplýsingar þurfi að gefa upp bankaauðkenni eða reikningsnúmer. Þeir leitast við að búa til aðstæður sem setja fólk í þá stöðu að því sé nauðugur einn kostur að gefa upplýsingar,“ segir Dalsbø og fellst á það með Andreassen í Kripos að bölmennin rói sífellt á ný mið.

„Þeir láta hvorki siðferði né afleiðingar fyrir fólk leggja stein í götu sína. Hér eru alltaf nýjar útgáfur af svindli í gangi og maður væntir þess eins, að þær verði grófari,“ segir hann og kveður tímana breytta. Áður hafi lélegt málfar svindlaranna einatt afhjúpað þá fljótlega. Þetta hafi hins vegar breyst mjög og nú þurfi almenningur að hugsa sig tvisvar um. „Farðu á vefsíður VG eða NRK og leitaðu að greininni þar. Ef þú finnur hana ekki er hún fölsuð.

Leikarinn Andreas Cappelen tekur málinu með ró, en vill ráða …
Leikarinn Andreas Cappelen tekur málinu með ró, en vill ráða svikurunum heilt: „Til eru miklu frægari leikarar en ég,“ segir hann og bendir á aðra sem nælt hefðu í meiri athygli en hann og fengið fleiri smelli. Ljósmynd/Úr einkasafni

Cappelen, sem sagður var látinn, vill hins vegar ráða svindlurunum heilt: „Ef þetta er nýjasta svikaaðferðin finnst mér inngangurinn vera vitlaus. Til eru miklu frægari leikarar en ég. Ég hefði valið Piu Tjelta eða Aksel Hennie, mun fleiri hefðu smellt á það,“ segir leikarinn að skilnaði við NRK.

NRK

Dagbladet (falsað viðtal við Hivju)

Faktisk.no (falsað viðtal við Elise)

mbl.is