Fá fjórar milljónir bóluefnaskammta frá Bandaríkjunum

Skammtarnir, sem komu í tveimur flugvélum, bárust embættismönnum Nígeríu frá …
Skammtarnir, sem komu í tveimur flugvélum, bárust embættismönnum Nígeríu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. AFP

Nígería fékk fjórar milljónir skammta af bóluefni Moderna frá Bandaríkjunum í dag til þess að vesturafríska þjóðin geti eflt tilraunir til þess að berjast gegn þriðju bylgju faraldursins.

Skammtarnir, sem komu í tveimur flugvélum, bárust embættismönnum Nígeríu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Skammturinn var annar þeirra sem borist hafa til fjölmennustu þjóðar Afríku eftir að fjórar milljónir skamta voru afhentar í mars, samkvæmt Covax-kerfinu. Í Nígeríu búa um 210 milljónir manna.

Hafa áhyggjur af örvunarskömmtum

Covax var sett á laggirnar til að tryggja jafna dreifingu bóluefna, einkum til tekjulágra landa. Það hefur skilað meira en 80 milljónum skammta til 129 landsvæða. 

Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að Delta-afbrigðið gæti valdið öðru áfalli við dreifingu bóluefna, þar sem auðugri ríki fara nú að krefjast örvunarskammta af bóluefni fyrir fólk sem er þegar talið fullbólusett.

Veiran hefur dregið 2.149 manns til dauða í Nígeríu og smitað næstum 174.000 manns, en talið er að raunverulegar tölur séu mun hærri sökum þess að lítið er skimað.

mbl.is