Risahaglél í Noregi

Sjón er sögu ríkari og hér heldur Overskeid á sýnishorni …
Sjón er sögu ríkari og hér heldur Overskeid á sýnishorni af haglinu sem lá eins og hráviði um veginn þegar þau sambýlingarnir komu til Åmli í Agder í gær. Hún segir stærstu höglin hafa jafnast á við golfkúlur. Ljósmynd/Kari Anne Overskeid

Kari Anne Overskeid og sambýlismaður hennar þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki verið örlítið fyrr á ferð sinni um Åmli í Agder-fylki í Suður-Noregi í gærkvöldi. Þegar þau komu í þetta litla byggðarlag, heimili um 700 íbúa, eftir kanó-róður í Treungen, mætti þeim heldur óvenjuleg sjón miðað við árstíma. Risastór haglél, þau stærstu á við golfkúlur, þöktu veginn og næsta nágrenni.

„Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Overskeid í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „trjágreinar og laufblöð lágu um allan veginn, sem haglélið hafði líklega rifið með sér niður. Ég þakka bara fyrir að við vorum ekki þarna þegar haglið féll, við hefðum getað slasast.“

Kirfilega dældað bílþak eftir orrahríðina í gær. Sjónarvottur segir ökumenn …
Kirfilega dældað bílþak eftir orrahríðina í gær. Sjónarvottur segir ökumenn hafa ekið í ofboði undir nálæg tré til að afstýra stórtjóni. Ljósmynd/Halvor Gjermones

Elin Try, sem býr skammt frá Åmli, varð vitni að ósköpunum í gær. „Umferðin stöðvaðist algjörlega, bílum var ekið undir tré til að leita skjóls,“ segir hún og kveður sýnilegar dældir hafa verið á fjölda bifreiða sem hún sá.

Högl á stærð við vínber

Dagblaðið VG greinir enn fremur frá risahagléli víða í Vestfold og Telemark á sama tíma, svo sem í Vråliosen i Kviteseid þar sem Lars Erik Wærness Wraa og fjölskylda hans, sem voru í útilegu, horfðu steinilostin á högl á stærð við vínber lita foldina hvíta síðasta dag júlímánaðar. „Þetta hlýtur að vera sögulegt. Við höfum aldrei upplifað annað eins. Ég hef séð haglél að vetrarlagi, en ekki á stærð við þetta. Þetta er eins og vínber,“ segir Wraa frá í samtali við VG.

Per Egil Haga, vakthafandi veðurfræðingur á norsku veðurstofunni Meteorologisk Institutt, segir í samtali við NRK að veðurstofunni hafi borist fjöldi tilkynninga frá fólki í Telemark og austast í Agder um haglél af öðrum heimi. „Við útilokum ekki að þetta hafi fallið víðar. Þarna voru þungbúin skúraský á ferð sem náðu allt frá austurhluta Agder gegnum Telemark, til Buskerud og alla leið upp í Guðbrandsdalinn,“ segir veðurfræðingurinn frá.

Hagl með kort í sömu stærð og greiðslukort sem kvarða. …
Hagl með kort í sömu stærð og greiðslukort sem kvarða. Ekki er hægt að neita því að þar tíðkist hin breiðari spjótin. Ljósmynd/Kari Anne Overskeid

Þessu hafi fylgt haglél og þrumuveður, haglél að sumarlagi sé í sjálfu sér engin nýlunda, en stærðin á éljunum komi vissulega á óvart. „Mjög sjaldgæft er að högl nái þessari stærð á okkar breiddargráðu. Í Noregi er oftast um að ræða minni kúlur sem líkjast venjulegum snjó, verða kannski í mesta lagi á stærð við marmarakúlur,“ segir Haga um þessa óvenjulegu stórskotahríð í Suður-Noregi í gær.

NRK

VG

mbl.is