Slökkviliðsmenn standa í ströngu vegna skógarelda

Skógareldar hafa brennt hús til grunna og margir hafa þurft …
Skógareldar hafa brennt hús til grunna og margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. YIORGOS KARAHALIS

Tæplega 300 slökkviliðsmenn vinna nú hörðum höndum að því að slökkva skógarelda í Grikklandi. Tvær flugvélar og fimm þyrlur eru notaðar til þess að hella vatni á eldana, en átta manns hafa særst í eldunum.

Eldarnir kviknuðu snemma í gær í borginni Patras, um 210 kílómetra vestur af Aþenu. Rýma þurfti fimm þorp og einn bæ við sjávarsíðuna. Eins og áður segir þá þurftu átta manns að leggjast inn á spítala vegna brunasára og öndunarfæravanda.

Lífsviðurværi fólks í húfi

Almannavarnaráðherra Grikklands, Michalis Chrisochoidis, þakkaði slökkviliðsmönnum fyrir vel unnin störf og sagði þá hafa bjargað tugum eigna á svæðinu. Borgarstjóri Aigialeias, Dimitris Kalogeropoulos, sagði eldana þó vera „gífurlegar hörmungar“.

„Það er ekki enn búið að taka saman hve mikið tjón er vegna eldanna, en fyrir liggur að um tíu hús brunnu til grunna, auk fjár- og hesthúsa. Það er gífurleg blóðtaka fyrir íbúa svæðisins en lífsviðurværi þessa fólks er landbúnaður,“ er haft eftir borgarstjóranum.  

„Við erum búin að ganga í gegnum hreint helvíti. Við vorum skelkuð um að missa allt sem við eigum í eldunum,“ hefur AFP eftir íbúa á svæðinu.

Skógareldar geisað víða um heim

Skógareldar hafa geisað víða um heiminn undanfarnar vikur. Líkt og mbl.is hefur greint frá hélt Joe Biden Bandaríkjaforseti neyðarfund með nokkrum ríkisstjórum frá vesturhluta Bandaríkjanna nýverið, sökum skógarelda sem hafa geisað þar ytra.

Einnig hafa Tyrkir staðið í ströngu vegna skógarelda, og hafa yfirvöld þar í landi sætt gagnrýni þar sem engar flugvélar eða þyrlur, hannaðar til slökkvistarfs, voru til taks. Þá hafa skógareldar einnig geisað í Finnlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert