Snúið heim frá Tókýó gegn vilja sínum

Leikarnir fara fram í Tokyo, líkt og flestir vita.
Leikarnir fara fram í Tokyo, líkt og flestir vita. AFP

Hvítrússneska íþróttakonan Kristína Timanovskaja var neydd til þess að yfirgefa Ólympíuleikana í Tókýó í kjölfar þess að hún gagnrýndi vinnubrögð Íþróttasambands Hvíta-Rússlands.

Kristína gagnrýndi þau vinnubrögð sambandsins að skrá hana til leiks í 400 metra boðhlaup, án þess að láta hana vita fyrir fram.

„Kemur á daginn að frábæru yfirmennirnir okkar ákveða á endanum allt fyrir okkur,“ sagði Kristina í instagramfærslu sem nú er búið að eyða. Hún bætti síðar við í annarri færslu á Instagram að hún hefði ekki brugðist svo illa við hefði hún verið látin vita fyrir fram, aðstæður hefðu verið útskýrðar og hún spurð hvort hún gæti tekið þátt í hlaupinu.

„En þeir ákváðu að gera allt án samráðs við mig,“ bætti hún við.

Flutt nauðug úr landi vegna „tilfinningalegs uppnáms“

Samtök hvítrússneskra andófssinnaðra íþróttamanna, samtök sem styðja við íþróttafólk sem gagnrýnir valdstjórn Lúkasjenkós, forseta landsins, tilkynntu að „fulltrúar hvítrússneska ólympíuliðsins væru að vísa henni nauðugri úr landi“, þ.e. úr Japan.

Samtökin bættu síðar við að Kristína væri á flugvelli í Tókýó og birtu þau myndband þar sem hún ávarpaði alþjóðaólympíunefndina.

„Það er verið að pressa á mig og þeir eru að reyna að flytja mig úr landi án samþykkis. Ég biðla til nefndarinnar að stíga inn í og aðstoða mig.“

Hvítrússneska ólympíunefndin tilkynnti síðar að Kristína væri hætt keppni að læknisráði vegna „sálræns og tilfinningalegs uppnáms“.  

mbl.is