Þjóðverjar munu bjóða upp á örvunarskammt

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands. AFP

Þjóðverjar koma til með að bjóða upp á svokallaða örvunarskammta af bóluefni, fyrir eldra fólk og fólk sem tilheyrir áhættuhópi, frá fyrsta september. Þetta meðal annars á að vera í minnisblaði sem heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, mun ræða við sextán svæðisbundna heilbrigðisráðherra nú á morgun. Þetta herma heimildir AFP.

Í minnisblaðinu eiga þá einnig að koma fram áform stjórnvalda þess efnis að hefja bólusetningar á börnum á aldrinum tólf til sautján ára.

Fá Pfizer eða Moderna

Bólusetningarteymi verða send á hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra til þess að bjóða upp á örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða Moderna. Þá mun ekki skipta máli hvaða bóluefni fólk fékk áður.

Þrátt fyrir að faraldurinn sé í ákveðinni lægð í Þýskalandi, samanborið við nágrannaþjóðir í það minnsta, þá hafa smittölur hækkað að undanförnu sökum uppgangs Delta-afbrigðisins. Þá hafa margir áhyggjur af því hve hægt gengur að bólusetja þýsku þjóðina, en rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar er fullbólusettur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert