28% hafa ekki efni á vikufríi erlendis

Frí á sólarströnd í viku stendur 28% íbúa Evrópusambandsins ekki …
Frí á sólarströnd í viku stendur 28% íbúa Evrópusambandsins ekki til boða vegna lágra tekna.

28% þeirra sem búa í Evrópusambandinu hafa ekki efni á því að fara í frí erlendis í heila viku. Þetta kemur fram í rannsókn sem Evrópusamband Verkalýðsfélaga, ETUC, birti í dag.

Einnig kemur fram í rannsókninni að hlutfall þeirra sem ekki hafa ráð á að ferðast erlendis í viku á ári sé töluvert hærra meðal ákveðinna hópa. Meðal láglaunastarfsmanna, ellilífeyrisþega og atvinnulausra er hlutfallið tæplega 60%, er fram kemur í rannsókninni.

„Þrátt fyrir aukið framboð á áfangastöðum og leiðum til þess að fara í frí hafi aukist undanfarin áratug, þá stendur þetta meirihluta lágtekjufjölskyldna ekki til boða,“ kemur fram í rannsókninni.

Ójöfnuður aukist í sextán löndum 

Samkvæmt rannsókninni eru lágmarkslaun sextán landa sambandsins svo lág að þau setji fólk „við fátæktarmörk.“ Fólk er þá talið við fátæktarmörk í rannsókninni, ef laun þeirra eru undir 60% af miðgildi launa í landinu.

Grikkland er samkvæmt rannsókninni með hæsta hlutfall fólks sem ekki hefur efni á fríi eða 88,9%. Þar á eftir kemur Rúmenía með 86,8%, Króatía með 84,7% og Kýpur með 79,2%.

„Ójöfnuður hefur aukist hvað varðar aðgengi að fríi í sextán aðildarríkjum undanfarin áratug, þá aðallega milli þeirra sem eru með tekjur yfir og undir 60% af miðgildi launa í ríkjunum,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.

Fram kemur einnig að 7 milljónir Ítala, 4,7 milljónir Spánverja, 4,3 milljónir Þjóðverja og 3,6 milljónir Frakka hafi ekki efni á því að fara í frí erlendis sem nemur einni viku á ári.

mbl.is