Asphalt Princess sagt í höndum vopnaðra manna

Mercer Street skipið.
Mercer Street skipið. AFP

Hópur átta eða níu vopnaðra manna er talinn hafa tekið yfir flutningaskipið Asphalt Princess við strendur Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Þetta segir í tilkynningu frá yfirvöldum í Bretlandi.

„Það fóru menn um borð í óleyfi í Ómanflóa,“ segir heimildarmaður Sky News.

Á sama tíma kemur fram á fréttaveitu AP að að minnsta kosti fjögur skip hafi misst stjórnina og sent út viðvaranir vegna þess. 

Utanríkisráðherra Írans segir atvikið „grunsamlegt“ en varaði við misvísandi umræðu gegn ríkisstjórn Írans.

Ekki í fyrsta skiptið

Olíuflutningaskipin Queen EmathaGolden Brilliant, Jag Pooja og Abyss hafa öll tilkynnt í gegnum sjálfvirka auðkenningarkerfið að þau séu ekki „undir stjórn“, samkvæmt MarineTraffic.com.

Slík tilkynning þýðir vanalega að skipið sé án raforku og því ekki hægt að stýra því.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Íranar hafa kyrrsett skip sem hafa farið í gegnum Hormuz-sund en árið 2019 kyrrsettu þeir tvö bresk olíuflutningaskip.

Þessi atvik fylgja mögulegum drónaárasum á Mercer Street-skipið í síðustu viku, en Bandaríkin, Bretland og Ísrael segja Íran standa á bak við árásina.

Breska sérsveitin kemur að rannsókn málsins til að komast til botns í hvað gerðist þegar árasin átti sér stað. 

„Svívirðileg árás“

Mercer Street er í eigu Japana en sigldi undir líberíska fánanum.

Zodiac Maritime, breska fyrirtækið sem sér um skipið, er hluti af fyrirtæki ísraelska milljarðamæringsins Eyals Ofers.

Tveir létu lífið í árásinni; breskur öryggisvörður og rúmenskur áhafnarmaður.

Sendiherra Írans í Bretlandi var kallaður á fund hjá yfirvöldum þar í landi vegna árásarinnar.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að Íran verði að taka afleiðingum gjörða sinna. Hann bætti við að árásin á Mercer Street-skipið hefði verið algjörlega óviðunandi og að svívirðilegt væri að gera árás á skip einkafyrirtækis, en þar lét breskur ríkisborgari lífið.

mbl.is