Covid snýr aftur til Wuhan – allir íbúar skimaðir

Heilbrigðisstarfsfólk í Wuhan við upphaf faraldursins 2020.
Heilbrigðisstarfsfólk í Wuhan við upphaf faraldursins 2020. AFP

Yfirvöld í kínversku borginni Wuhan gáfu úr í dag að allir íbúar yrðu skimaðir fyrir Covid-19, eftir að fyrstu smit á milli manna í yfir ár greindust í borginni. Fyrstu tilfelli Covid-19 voru greind í borginni. 

Smitum hafi aftur farið fjölgandi í Kína og greinast nú fleiri á dag en hafa gert svo mánuðum skiptir. Íbúum heilu borganna er gert að halda sig heima, samgöngur hafa verið lágmarkaðar og fjöldaskimanir hafa verið settar á laggirnar. 

Delta-afbrigðið virðist leika Kínverja, sem aðra, grátt og setja áætlanir stjórnvalda í Kína, um Covid-laust Kína, í uppnám.

Mikið bakslag

Yfirvöld í Peking höfðu áður hrósað ýmsum áfangasigrum í baráttunni við veiruna og höfðu snúið til nokkurs konar eðlilegs ástands þar sem efnahagur var tekinn að ná sér. Á sama tíma voru stórir hlutar heimsins að glíma við Delta-afbrigði veirunnar. 

Nýjustu smittölur ógna árangri Kína þar sem yfir 400 innanlandssmit hafa verið tilkynnt síðan um miðjan júlí. Þá kom upp hópsýking á meðal hreingerningastarfsfólks á flugvellinum í Nanjing, í Jiangsu-héraði, sem teygði síðan anga sína til yfir 20 borga í yfir 12 héruðum. 

Ellefu milljónir manns búa í Wuhan-borg, þar sem nú stendur til að grípa til róttækra aðgerða þar sem allir íbúar verða skimaðir. Í gær tilkynntu yfirvöld að um sjö smit væri að ræða sem rekja má til umdæmis Wuhan. Fyrir það hafði ekki greinst smit á milli manna innan borgarinnar í yfir ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert