Hvetja almenna borgara til að forða sér

Fjöldi fólks hefur þurft að flýja heimili sín í Afganistan.
Fjöldi fólks hefur þurft að flýja heimili sín í Afganistan. AFP

Íbúar Lashkar Gah-borgar í Afganistan, sem er umsetin af talíbönum, hafa verið hvattir af stjórnvöldum til þess að forða sér og rýma borgina í aðdraganda árásar afganska hersins gegn talíbönum. 

BBC greinir frá. 

Sami Sadat hershöfðingi, sem leiðir baráttuna gegn talíbönum í suðurhluta Helmand-héraðs, hvatti íbúa höfuðborgarinnar Lashkar Gah til þess að yfirgefa hana sem fyrst. 

Í það minnsta fjörutíu almennir borgarar hafa látist í Laskar Gah síðustu daga vegna stríðsátaka, að sögn Sameinuðu þjóðanna. 

Talíbanar ráða nú yfir meirihluta borgarinnar. 

Átök um borgina standa enn yfir og hafa stjórnvöld heitið því að leyfa henni ekki að falla í hendur herskárra talíbana. 

Ekki einn talíbana eftir á lífi

Í yfirlýsingu sinni til íbúa borgarinnar sagði Gen Sadat hershöfðingi að herinn myndi ekki skilja einn talíbana eftir á lífi. Bað hann íbúa borgarinnar afsökunar á að grípa þurfi til rýmingar og lofaði að ástandið myndi ekki vara lengi. 

Þá sagði Sadat í samtali við BBC að þó að talíbanar hefðu náð þokkalegri fótfestu í borginni sæi hann ekki fram á að þeir gætu staðið af sér árás stjórnarhersins. 

Yfirvofandi árás stjórnarhersins er hluti af fjölþættum aðgerðum um Afganistan þar sem talíbanar hafa sótt í sig veðrið eftir að bandaríski herinn yfirgaf svæðið eftir um tuttugu ára viðveru á svæðinu. 

mbl.is