Lögreglumaður stunginn fyrir utan Pentagon

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. AFP

Lögreglumaður er látinn eftir stunguárás fyrir utan Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið. Sá grunaði var skotinn til bana af lögreglunni á vettvangi. AP fréttastofan greinir frá.

Varnarmálaráðuneytinu var lokað tímabundið fyrr í dag eftir að byssuskotum var hleypt af nærri útgangi hússins. Ráðuneytið hefur nú verið opnað aftur og staðurinn sagður öruggur.

Tengsl milli byssuskotanna og stunguárásarinnar eru enn óljós. Yfirvöld hafa ekki gefið nákvæmar upplýsingar um málið né atburðarásina.

Árásin átti sér stað á stoppistöð fyrir strætisvagna við Pentagon sem er ekki nema örfáskref frá ráðuneytinu sjálfu.

Fréttaritari frá AP fréttastofunni (Associated press), heyrði mörg skot, síðan var pása og svo heyrði hann að hleypt var af enn einu skoti. Annar blaðamaður heyrði lögregluna kalla „byssumaður“.

mbl.is