Zoom greiðir 10 milljarða en neitar sök

Fjarfundarbúnaður Zoom hefur verið mikið notaður á tímum kórónuveirunnar.
Fjarfundarbúnaður Zoom hefur verið mikið notaður á tímum kórónuveirunnar. AFP

Zoom, fyrirtæki sem framleiðir fjarfundabúnað, hefur fallist á að greiða 85 milljónir dollara, eða um það bil 10 milljarða íslenskra króna, vegna mistaka við meðferð persónuupplýsinga. Málsóknin gegn Zoom sneri að því að fyrirtækið deildi persónuupplýsingum notenda með Facebook, Google og LinkedIn.

Zoom kvaðst myndu auka öryggi fjarfundabúnaðar síns en neitaði hins vegar sök í málinu.

„Friðhelgi einkalífs og öryggi notenda okkar er í forgangi hjá Zoom og við tökum traustið sem notendur bera til okkar alvarlega,“ sagði talsmaður Zoom við AFP-fréttastofuna.

Með greiðslunni verður stofnaður sjóður að fjárhæð 85 milljónir dollara til að greiða gildar kröfur, umsýslukostnað, lögfræðikostnað og fleira. Héraðsdómarinn Lucy Koh á þó enn eftir að samþykkja greiðsluna.

Notendur sem greitt hafa fyrir áskrift hjá Zoom munu þá geta krafist 15% endurgreiðslu af fjárhæðinni eða 25 dollara, hvort sem er hærra. Þeir sem ekki borguðu fyrir áskrift geta krafist 15 dollara.

mbl.is